KORNAX mótið 2010 – Skákþing Reykjavíkur hafið



KORNAX mótið 2010 – Skákþing Reykjavíkur hófst í dag þegar 68 keppendur öttu kappi í fyrstu umferð en það er mesta þátttaka í einhver ár.

Mótið er vel skipað í ár með 21 skákmanni sem hafa meira en 2000 elo stig, þar af eru sex með yfir 2300 stig.  Einn stórmeistari tekur þátt, þrír alþjóðlegir meistarar og þrír Fide meistarar.

Baráttan um sigur mun án efa standa á milli stigahæstu mannanna, alþjóðlega meistarans Braga Þorfinnssonar (2398), Hjörvars Steins Grétarssonar (2358), alþjóðlega meistarans Björns Þorfinnssonar (2383), Ingvars Þórs Jóhannessonar (2330), Sigurbjörns Björnssonar (2317) og stórmeistarans Lenku Ptacnikovu (2315).  Sérstaklega verður spennandi að fylgjast með gengi ríkjandi Skákmeistara Reykjavíkur, Hjörvari, en hann hefur farið mikinn síðastliðið ár og vann m.a. áskorendaflokk Íslandsmótsins í haust með fádæma yfirburðum ásamt því sem hann var hársbreidd frá því að næla sér í sinn fyrsta alþjóðlega áfanga á Reykjavík Open síðastliðið vor.

Nokkur óvænt úrslit litu dagsins ljós í fyrstu umferð og má þar nefna jafntefli hins unga og efnilega TR-ings, Páls Andrasonar (1620) við hinn þrautreynda Bolvíking, Halldór Grétar Einarsson (2260).  Þá gerði annar ungur og efnilegur skákmaður, Dagur Ragnarsson (1455), jafntefli við annan “gamlan” jaxl, Júlíus L. Friðjónsson (2174).  Árni Guðbjörnsson, stigalaus, gerði jafntefli við Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur og hinn stigalausi norski Íslendingur, Jon Olav Fivelstad vann formann T.R. Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur (1809) en Jon sýndi það vel á fimmtudagsmótum í fyrra að hann er sterkur skákmaður sem hefur ekki teflt kappskákir í 20 ár og er því ekki á stigalista.

Önnur úrslit voru eftir hinni margfrægu bók, sem enginn veit reyndar hver er.

Nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins.