Bikarsyrpu mótaröð Taflfélags Reykjavíkur byrjar með trukki á þessu hausti. Þessa helgina voru 45 keppendur skráðir til leiks og voru fjölmargar góðar skákir tefldar inn á milli. Á sama tíma voru aðrir að taka sín fyrstu skref við skákskriftir.
Mótið var að þessu sinni frekar jafnt og þegar mótið var hálfnað var enn allt opið.

Emilía Embla og Karma
Í fjórðu umferð fóru línur aðeins að skýrast þegar Emilía Embla og Karma mættust á efsta borði. Við fyrstu sýn leit út fyrir að Emilía væri að taka forystu en stuttu seinna var óvænt samið um jafntefli.
Í fimmtu umferð sigraði Pétur Úlfar Emilíu og á öðru borði hafði Karma betur gegn Tristan Fannari. Var þá orðið ljóst að baráttan yrði milli Péturs og Karma.
Með sigri á Pétri Úlf í 6.umferð var Karma kominn í vænlega stöðu fyrir lokaumferðina.

Karma og Pétur
Í loka umferðinni kom síðan sú skemmtilega staða upp að bræðurnir Karma og Nirvaan mættust á efsta borði. Eftir nokkrar flækjur einfaldaðist staðan og þá var samið jafntefli sem tryggði Karma óskipt efsta sæti með 6 vinninga. Góður sigur hjá Karma sem var að tefla sína fyrstu reiknuðu kappskák í ágúst á þessu ári.

Karma og Nirvaan
Að lokum voru fjórir keppendur jafnir með 5½ vinning. Emilía Embla, Nirvaan, Tristan Fannar og Þór Jökull. Eftir stigaútreikning sem reyndist óvenju jafn að þessu sinni endaði Nirvaan efstur og Emilía Embla í 3.sæti.

Verðlaunahafar
?Karma Halldórsson 6
?Nirvaan Halldórsson 5½
?Emilía Embla B. Berglindardóttir 5½

Stúlknaverðlaun
?Emilía Embla Berglindardottir 5½
?Inga Jóna Haarde Vignisdóttir 3½
?Emilía Sigurðardóttir 3
Taflfélag Reykjavíkur vill þakka öllum keppendum fyrir þátttöku og vonumst við til að sjá sem flesta á næsta móti. Næsta Bikarsyrpumót T.R. fer fram helgina 22-24 nóvember. Hægt er að sjá lokastöðu mótsins á Chess-results: Bikarsyrpa I 2024