Bandaríski alþjóðlegi meistarinn Justin Sarkar vann sannfærandi sigur með fullu húsi á Þriðjudagsmótinu 12. apríl síðastliðinn. Fyr um daginn hafði galopna Reykjavíkurskákmótið klárast og fáeinir skákþyrstir kappar mættu til leiks nánast beint eftir lokahófið: Justin Sarkar, Vitaliy Garbuz, Raphael Kracht og Max Peter Bartetlt, en þeir þrír síðastnefndu eru þýskir skákmenn um tvítugt. Í bland við erlendu gestina tóku þátt kunnuleg andlit úr íslensku skáksenunni í bland við nýliða, en fjórir íslenskir skákmenn mættu til leiks á fyrsta sinn á þriðjudagsmót, þar á meðal Stúlknameistari Reykjavíkur 2016, takk fyrir!
Gauti Páll, Vitally og Max Peter komu næstir í röðinni með fjóra vinninga. Jósef Omarsson, með 1258 atskákstig hlýtur bókaverðlaunin fyrir bestan árangur miðað við stig, en hans árangur var upp á 1716 stig. Það var aðdáunarvert að sjá hinn 10 ára gamla Jósef verja erfitt biskupaendatafl gegn Raphael Kracht (2122) þar sem að rétta hornið dugði ekki fyrir þann þýska. Þessi staða kom upp (sjá stöðumynd) og með réttri vörn er engin leið fyrir svartan að vinna vegna pattgildra. Eftir 1.Kc6 þarf til dæmis að vanda sig smá vegna fráskáksmáts, og leika einfaldlega 1. … Kc8. Engin leið áfram.
Alls mættu 23 skákmenn til leiks. Undanfarna mánuði hafa mætt fleiri en 20 á Þriðjudagsmót, stundum 30 eða fleiri. Mótin halda áfram vikulega út maímánuð, en það verður örlítið hægt á siglingunni yfir sumarmánuðina þrjá, en í júní, júlí, og ágúst verða mótin annan hvern þriðjudag, og verður sú dagskrá auglýst betur þegar nær dregur, ásamt öðrum sumarmótum í Taflfélaginu.
Næsta Þriðjudagsmót verður þriðjudagskvöldið 19. apríl næstkomandi og hefst mótið stundvíslega klukkan 19:30.