Jón Viktor Skákmeistari Reykjavíkur!



Andrúmsloftið í skákhöllinni í Faxfeni var rafmagnað er keppendur settust við taflborðin klukkan 14 í dag. Hörð barátta var framundan um sigur í Skákþingi Reykjavíkur. Á kaffistofunni sátu spekingarnir og spáðu í spilin, og sýndist sitt hverjum.

Flestra augu beindust að efstu tveimur borðunum. Á 1.borði hafði nýkrýndur Frikkinn, Jón Viktor Gunnarsson (2433), hvítt gegn Birni Þorfinnssyni (2373) og lögðu þeir félagar allt í sölurnar til að tryggja sér sigur í mótinu. Á meðan stýrði stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2492) svörtu mönnunum gegn Norðangarpinum Mikael Jóhanni Karlssyni (2077) og blésu þeir fljótlega í herlúðra. Er leið á taflið mátti glöggt sjá að Jón Viktor var að ná yfirhöndinni gegn Birni enda átti peðastaða Björns nokkuð undir högg að sækja. Á sama tíma varð Stefáni fótaskortur gegn Mikael sem kostaði hann peð. Til að gera langa sögu stutta að þá vann Jón Viktor góðan sigur á Birni, og Mikael gerði sér lítið fyrir og vann Stefán. Þar með lá fyrir að Jón Viktor hafði varið titilinn frá því á síðasta ári. Einnig var ljóst að Mikael hafði tryggt sér 2.sætið, öllum að óvörum, því úrslitin á 3.borði voru honum hagstæð.

Á 3.borði mættust Grafarvogsguttarnir Dagur Ragnarsson (2059) og Jón Trausti Harðarson (2067). Báðir höfðu átt sterkt mót fram að þessu og svo virðist sem þeir hafi verið orðnir nokkuð saddir. Þrátt fyrir að eygja sigur í mótinu sömdu þeir jafntefli í svo til ótefldri skák.

Titilhafarnir Dagur Arngrímsson og Guðmundur Gíslason réttu sinn hlut eilítið í þessari síðustu umferð og lögðu andstæðinga sína að velli með svörtu mönnunum. Þeir komust báðir nokkuð óskaddaðir frá þessu móti og enduðu með 6,5 vinning, þó öllum megi vera ljóst að þeir hafi ætlað sér stærri hluti.

Lokastaða efstu manna í mótinu:

1. Jón Viktor Gunnarsson 7,5 vinningar.

2. Mikael Jóhann Karlsson 7 vinningar.

3-8. Stefán Kristjánsson, Dagur Arngrímsson, Guðmundur Gíslason, Dagur Ragnarsson, Björn Þorfinnsson og Jón Trausti Harðarson, allir með 6,5 vinning.

Nánar verður fjallað um mótið í næstu viku.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur