Jón Viktor með vinningsforskot á TölvuteksmótinuAlþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, er í góðri stöðu að lokinni fimmtu umferð Haustmóts T.R. sem fór fram síðastliðið miðvikudagskvöld.  Jón gerði tiltölulega stutt jafntefli við Gylfa Þór Þórhallsson en á sama tíma tapaði alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason, fyrir hinum unga Mikael Jóhanni Karlssyni.  Mjög góður sigur hjá Mikael sem þýðir að Sævar er nú jafn Einari Hjalta Jenssyni í 2.-3. sæti með 3,5 vinning, vinningi minna en Jón, en Einar gerði jafntefli við stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu.

 

Í sjöttu umferð sem hefst á miðvikudagskvöld kl. 19.30 mætir Jón Viktor Kjartani Maack, Sævar mætir Sverri Erni Björnssyni og Einar Hjalti hittir fyrir Daða Ómarsson.

 

Í B-flokki er Dagur Ragnarsson efstur með 4 vinninga og hefur einnig vinningsforskot á næsta mann, Oliver Aron Jóhannesson.  Jafnir í 3.-4. sæti með 2,5 vinning eru Jón Trausti Harðarson og Nökkvi Sverrisson.  Dagur og Oliver gerðu jafntefli en Jón Trausti sigraði Eirík K. Björnsson og Nökkvi tapaði fyrir Emil Sigurðarsyni.  Líkt og í fyrra stefnir í æsispennandi baráttu í B-flokknum.

 

Í sjöttu umferð mætast m.a. Dagur og Grímur Björn Kristinsson, Oliver og Eiríkur, og Jón Trausti og Nökkvi.

 

Í opna flokknum hefur Hilmir Freyr Heimisson tekið forystu eftir góðan sigur á Ingvari Agli Vignissyni.  Hilmir

hefur 4 vinninga en Ingvar kemur næstur ásamt fjórum öðrum keppendum með 3,5 vinning.  Það er því ljóst að spennan verður mikil í seinni helmingnum en í sjöttu umferð mætir Hilmir Gauta Páli Jónssyni sem er einn af þeim sem hafa 3,5 vinning.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Upplýsingar
  • Skákir: 1. umf  2. umf  3. umf