Bragi efstur á HaustmótinuHTR_2015_R4-29

Hefur einhver roð í alþjóðlega meistarann Braga Þorfinnsson? Bragi er sem stendur með einu Elo-stigi minna en Björn bróðir.

Þegar fjórum umferðum er lokið á Haustmóti TR leiðir alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2414) með 3,5 vinning en hann sigraði kollega sinn, Sævar Bjarnason (2108), í gærkvöld þegar fjórða umferð fór fram.  Oliver Aron Jóhannesson (2198) gerði jafntefli við Björgvin Víglundsson (2169) og er í öðru sæti með 3 vinninga.  Benedikt Jónasson (2230) og Örn Leó Jóhannsson (2123) koma næstir með 2,5 vinning.

 

Nokkuð sérkennilegt atvik kom upp í skák Benedikts og Gylfa Þórhallssonar (2080) síðla kvölds þegar lítið eitt píp hljóð heyrðist í úri Benedikts, sjálfsagt til að láta hann vita að nú væri komið framyfir svefntíma.  Gylfi sá sér snögglega leik á borði í miður góðri stöðu, kallaði á skákstjóra og krafðist sigurs sökum hins einkennilega hljóðs úr úri andstæðingsins.  Skákstjóri kvað snarlega upp úr og hafnaði beiðninni með öllu.  Gylfi hafði því ekkert upp úr krafsinu að þessu sinni.

HTR_2015_R4-41

Guðlaug Þorsteinsdóttir hefur hlaðið í 4 vinninga í fjórum skákum.

Í B-flokki fer skákdrotningin Guðlaug Þorsteinsdóttir (1934) mikinn og sigraði nú sína fjórðu skák í röð.  Að þessu sinni var það Björn Hólm Birkisson (1907) sem fékk að finna til tevatns Guðlaugar sem færði taflemennina listilega vel.  Hefur Guðlaug því fullt hús vinninga en henni næstur kemur Agnar Tómas Möller (1854) með 3 vinninga eftir sigur á Snorra Þór Sigurðssyni (1956).  Vignir Vatnar Stefánsson (1921) hafði sigur á hinum margreynda Jóhanni H. Ragnarssyni (2033) og er í 3.-4. sæti með 2,5 vinning ásamt Siguringa Sigurjónssyni (1989) sem hafði betur gegn Ólafi Gísla Jónssyni (1926).

HTR_2015_R4-40

C-flokkurinn er einkar skemmtilegur með mörgum ungum og upprennandi skákmeisturum.

Í C-flokki er Gauti Páll Jónsson (1769) efstur með 3 vinninga þrátt fyrir að eiga inni frestaða skák úr fjórðu umferð gegn Heimi Páli Ragnarssyni (1712).  Þrír keppendur koma næstir með 2,5 vinning; Aron Þór Mai (1502), Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1843) og Óskar Víkingur Davíðsson (1742).  Aron þjarmaði vel að Veroniku sem varðist vel og að lokum sættust liðsfélagarnir á skiptan hlut sem og Óskar og Ólafur Guðmarsson (1667).

HTR_2015_R4-35

Í opna flokknum vann Arnar Milutin Heiðarsson frábæran sigur í fjórðu umferð.

Opni flokkurinn er verulega jafn og skemmtilegur en í fjórðu umferðinni sigraði Alexander Oliver Mai (1242) Guðmund Agnar Bragason (1354) á efsta borði og er fyrir vikið efstur með 3,5 vinning.  Arnar Milutin Heiðarsson (1055), Hjálmar Sigurvaldason (1488), Halldór Atli Kristjánsson (1441) og Jón Þór Lemery (1275) fylgja fast á eftir með 3 vinninga.

Arnar vann mjög góðan sigur á Jóhanni Arnari Finnssyni (1496) og þá má nefna baráttusigur Alexanders Björnssonar (1168) á Birgi Loga Steinþórssyni (1000) í meira en fjögurra klukkustunda skák.

HTR_2015_R4-39

Hátt spennustig er framundan í opna flokknum.

Rétt er að benda áhorfendum á að hafa sprengitöflurnar við hendina því spennan stigmagnast og fer fimmta umferð fram næstkomandi sunnudag en blásið verður í herlúðra þegar klukkur og úr slá tvö hanagöl eftir hádegi.  Í A-flokki mætir forystusauðurinn Bragi hinum óárennilega Erni Leó Jóhannssyni en á sama tíma mun Oliver fást við hinn magnaða Stefán Bergsson (2067) en Stefán er mikill sérfræðingur í allskyns barbabrellum á reitunum 64.

Í B-flokki fær barnalæknirinn Ólafur Gísli það hlutskipti að reyna að stöðva sigurgöngu geðlæknisins Guðlaugar sem mun vafalítið krukka eitthvað í hausnum á þeim fyrrnefnda.  Þá mætir Gauti Páll Ingvari Agli Vignissyni (1549) í C-flokki og í opna flokknum verður nóg af viðureignum efstu manna en pörun liggur ekki fyrir þegar þessi orð eru rituð.

Tékkið á stöðunni og myndunum hér að neðan.  Áhorfendur velkomnir – heitt á könnunni!