Jón Viktor einn með fullt hús í A-flokki á Tölvuteksmótinu



Alþjóðlegi meistarinn, Jón Viktor Gunnarsson, er einn efstur með fullt hús vinninga á Haustmóti T.R. eftir öruggan sigur á Daða Ómarssyni í þriðju umferð sem fór fram á föstudagskvöld.  Alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason, vann Fide meistarann, Einar Hjalta Jensson, nokkuð óvænt í mikilli baráttuskák.  Sævar er því einn í öðru sæti með 2,5 vinning en Einar og Jóhann H. Ragnarsson, sem sigraði Mikael Jóhann Karlsson, koma næstir með 2 vinninga.

 

Í fjórðu umferð sem hefst klukkan 14 á sunnudag mætir Jón Viktor Mikaeli og þá mætast Sævar og Jóhann í athyglisverðri baráttu.  Á sama tíma mætir Einar Sverri Erni Björnssyni og það virðist klárt að enginn af þessum skákmönnum hefur efni á að misstíga sig mikið ef einhver þeirra ætlar að halda í við Jón Viktor.

 

Í B-flokki hefur Fjölnismaðurinn, Dagur Ragnarsson, einn fullt hús vinninga eftir góðan sigur á Jóni Trausta Harðarsyni en Eyjapilturinn, Nökkvi Sverrisson, er annar með 2,5 vinning ásamt TR-ingnum síunga, Eiríki K. Björnssyni.  Nökkvi sigraði Grím Björn Kristinsson en Eiríkur sat hjá.  Oliver Aron Jóhannesson, einnig úr Fjölni, er þriðji með 2 vinninga eftir sigur á Emil Sigurðarsyni.  Elsa María Kristínardóttir þurfti að hætta þátttöku þannig að einn skákmaður situr hjá í hverri umferð.

 

Í fjórðu umferð mætir Dagur Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur, Nökkvi situr hjá, Eiríkur mætir Emil og Oliver etur kappi við Jón Trausta.

 

Í opnum C-flokki eru Felix Steinþórsson, Ingvar Egill Vignisson og Dawid Kolka efstir og jafnir með 2,5 vinning en þess má geta að Felix er rétt að verða ellefu ára og Dawid er nýorðinn tólf ára.  Það verður mjög spennandi að fylgjast með framvindu mála í næstu umferðum í opna flokknum því sex skákmenn koma næstir með 2 vinninga.

  • Bein útsending
  • Úrslit, staða og pörun
  • Myndir
  • Skákir
    • 1. umf
  • Upplýsingar