Stórmeistarinn Jón L. Árnason er genginn til liðs við Taflfélag Reykjavíkur. Jón þarf ekki að kynna fyrir skákáhugamönnum en hann varð fyrsti Heimsmeistari Íslendinga í yngri flokkum en það afrek vann hann í Cagnes sur mer við frönsku rivíeruna haustið 1977. Jón varð síðar stórmeistari og hluti af fjórmenningaklíkunni frægu.
Jón hefur minna teflt undanfarin ár en staðið sig vel með fyrrnefndri fjórmenningaklíku á undanförnum árum á Heims- og Evrópumótum öldungasveita.

Þungt hugsi Íslenska sveitin í 2. umferð HM öldungasveita 2024, Jón L. Árnason er hér á þriðja borði.
Taflfélag Reykjavíkur fagnar því að fá Jón aftur heim, en eins og langflestir innfæddir íslenskir stórmeistarar hóf Jón taflmennsku með Taflfélagi Reykjavíkur.