Eins og undanfarin ár endaði haustið í TR á jólaskákæfingunni, en það er uppskeruhátíð haustsins sem krökkum af öllum æfingum er boðið að koma á. Veittar eru viðurkenningar fyrir ástundun og teflt er fjölskylduskákmót, en þá mynda tveir einstaklingar eitt lið og mega foreldrar, ömmur og afar, frændur og frænkur og bræður og systur tefla með börnunum. Einnig mega vinir og vinkonur tefla saman. Eins og ávallt er jólastemningin allsráðandi og eru liðin nefnd skemmtilegum nöfnum, gjarnan jólatengdum. Þannig eru t.d. “mögnuðu mandarínurnar” fastagestir á mótinu og nokkur fleiri jólatengd nöfn voru t.d. “jólasveinkurnar”, “Grýla og Leppalúði” og “jólasnúbbarnir” – en síðasta orðið verður óneitanlega að teljast jólatengt, þó að skrifari þessari orða játi að hann viti ekki hver merking þess er.
Mótinu lauk með sigri “Veiðimannanna”, en það voru þeir Markús Orri Jóhannsson úr framhaldsflokki og Ásgeir Þór Árnason og hlutu þeir 10 vinninga af 12 mögulegum. Á hæla þeirra með 9,5 vinninga komu “Chess.com” – ekki fyrirtækið eða vefsíðan, heldur vinirnir Rayan Sharifa og Arnar Valsson – og í 3. sæti með 8,5 vinninga lentu svo “Bræðurnir tveir”, bræðurnir Adam og Jósef Omarssynir.
Síðan voru veittar medalíur fyrir ástundun í öllum flokkum.
Byrjendaflokkur:
Gull: Sigurður Erik Hafstein
Silfur: Jóhanna Sigríður Kristmundsdóttir, Jón Sölvi Sigurðarson, Kristófer Árni Davíðsson
Bronz: Fálki Víðar Gunnarsson, Hilmir Bjarni Ólason, Hrefna Höskuldsdóttir Rafnar
Stelpuskákæfingar:
Gull: Gerður Helgadóttir, Hildur Birna Hermannsdóttir
Silfur: Bergþóra Helga Gunnarsdóttir
Framhaldsflokkur:
Gull: Birkir Hallmundarson og Markús Jóhannsson
Silfur: Ingvar Wu Skarphéðinsson og Benedikt Þórisson
Bronz: Iðunn Helgadóttir
Jafnframt kvöddum við í dag annan þjálfarann okkar í byrjendaflokki, hana Nataliu Castejón. Natalia kom til Íslands frá heimalandi sínu, Spáni, í byrjun árs og setti sig strax í samband við okkur í Taflfélagi Reykjavíkur. Í ljós kom að hún er alvön að sjá um skákkennslu barna, auk þess að hafa gengt formennsku í skákklúbbi sínum í Madrid. Hún var því fengin til að þjálfa byrjendaflokk með Torfa Leóssyni og var það mikið gæfuspor, því, auk þess að vera góður kennari, varð Natalia umsvifalust mikill vinur krakkanna. Það verður því mikill missir að henni þegar hún flytur nú aftur til Spánar. Taflfélag Reykjavíkur kann henni bestu þakkir fyrir vel unnin störf og hefur Natalia fullvissað okkur um að liggi leiðir hennar aftur til Íslands muni hún taka upp þráðinn í kennslunni.
Skákfundinum lauk með jólahressingu. Taflfélag Reykjavíkur þakkar fyrir skemmtilega uppskeruhátíð og skemmtilega haustönn. Sjáumst á reitunum 64 í janúar!