Jóladagatal TR – #7 Hurðaskellir



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

hurdaskellir

Mynd: Búi Kristjánsson

Hurðaskellir er mjög óagaður og hvatvís skákmaður. Hann veður áfram í sókn við hvert tækifæri án þess að gæta að kóngsstöðu sinni eða velta því fyrir sér hvort hann hefur lokið við liðsskipun sína. Hurðaskelli er meira að segja sama þó mennirnir hans séu óvaldaðir. Hann er líka óskaplega hávær við taflborðið og það kemur fyrir að skákstjórar þurfa að sussa á hann þegar hann tekur þátt í skákmótum. Frægt var þegar hinn annars geðgóði skákdómari Ólafur Ásgrímsson þurfti þrisvar sinnum að sussa á Hurðaskelli á Haustmóti TR árið 1991. Hurðaskellir er vanur að vera miklu liði undir en er oftast með eitthvað óljóst sprikl í kringum kóngsstöðu andstæðingsins í staðinn. Í stöðu dagsins hefur Hurðaskellir hvítt gegn Skjóðu, systur jólasveinanna. Skjóða er miklu liði yfir og hótar auk þess máti uppi í borði. En heppnin er með Hurðaskelli því í stöðunni á hann leik sem bjargar öllu og færir honum unnið endatafl með því að notast við gaffal.

hurdaskellir-stodumynd

Hver er vinningsleið hvíts?