Jóladagatal TR – #3 Stúfur



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

stufur

Mynd: Búi Kristjánsson

Stúfur greyið hefur alla tíð barist við sinn helsta veikleika við taflborðið sem er minnimáttarkennd. Smæð hans gerir það að verkum að hann lítur upp til andstæðinga sinna, í orðsins fyllstu merkingu, og á erfitt með að berja í sig kjarki fyrir skákir. Eitt árið datt honum það snjallræði í hug að tefla bara við börn í stað þess að vera alltaf að tefla við þessa sterku fullorðnu andstæðinga. Þrátt fyrir vera orðinn 163 ára gamall ákvað hann að skrá sig á Bikarsyrpu TR og fékk að vera með. Sennilega hefur Þórir skákstjóri haldið að Stúfur væri einn af börnunum. Börnin voru nú samt ekki eins auðveldir andstæðingar og Stúfur hafði vonað. Hann hafði nefnilega núll vinninga eftir þrjár umferðir og var einn í neðsta sæti á mótinu. Í fjórðu umferð lenti hann á móti 6 ára dreng sem teldi eins og engill og var við það að máta Stúf í stórsókn á drottningarvængnum.

stufur-stodumynd

Skyndilega datt okkar manni snjallræði í hug sem bjargaði skákinni í jafntefli með þráskák. Þessi hálfi vinningur var sá eini sem Stúfur fékk í þessari Bikarsyrpu, greyið karlinn. Hver var leikurinn sem tryggði Stúfi jafnteflið?

Safnaðu svörunum þínum saman og sendu þau á bivark@gmail.com, eftir að þrettánda og síðasta þrautin birtist á Þorláksmessu, og þú gætir unnið veglegan jólaglaðning!