Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.
Kertasníkir kom uppgefinn inn í hellinn, veðurbarinn og þakinn í snjó eftir gönguna. Hann hafði nýlokið við að gefa börnunum í skóinn og klukkan var að nálgast hádegi á Aðfangadag. Hann hafði vakað alla nóttina og vildi helst fá að fara úr blauta búningnum sínum og leggja sig í rúmið, en slíkt var ekki í boði. Ekki í dag allavega. Á Aðfangadag var hefð hjá fjölskyldunni að halda Jólamót; 15 umferða atskákmót – sem tók allan daginn. Það var eins gott að Kertasníkir var í góðri æfingu. Hann hafði nefnilega um langa hríð sótt tíma hjá Daða Ómarssyni til þess að bæta byrjanaþekkingu sína. Daði hafði verið að kenna Kertasníki helstu leiðir í Sikileyjarvörn sem kröfðust mikils utanbókarlærdóms. Kertasníkir vissi það að ef hann legði á sig mikla vinnu þá yrði uppskeran góð. Leppalúði, sem er jafnan sjálfskipaður skákdómari Jólamótsins, og er leiðinlega smámunasamur í tengslum við skákreglurnar, setti klukkurnar í gang um leið og veðurbarinn og dauðþreyttur Kertasníkir kom inn í hellinn. Eftir frábært mót, þar sem hver mátsóknin tók við af annarri og allt gekk upp hjá Kertasníki, mætti hann endataflssérfræðingnum honum Þvörusleiki í úrslitaskákinni í lokaumferðinni. Byrjunin hafði verið flókin leið í Drekaafbrigði Sikileyjarvarnar og eftir miklar sviptingar, þar sem Kertasníkir hafði unnið hrók fyrir nokkur peð, kom upp endatafl þar sem Þvörusleikir hafði ýtt einu af frípeðum sínu niður til a2. Kertasníkir heldur mikið upp á leikþröng sem oft kemur fyrir í endatöflum. Honum finnst leikþröng áhugavert þema því þá lendir annar keppandinn í þeirri vandræðalegu stöðu að hann neyðist til þess að leika leik sem hann vill alls ekki þurfa að leika. (Svolítið eins og þegar Grýla skammar þá bræðurna – allir leikir verða lélegir í þannig stöðum). Þvörusleikir lék síðast peðinu sínu niður til a2 og hótar að vekja upp drottningu á a1 í næsta leik.
Hvernig fór Kertasníkir að því að vinna skákina og tryggja sér um leið sigur á Jólamótinu?
Munið að senda allar lausnir á bivark@gmail.com eigi síðar en kl. 20:00 á Jóladag. Veglegur jólaglaðningur í boði fyrir sigurvegarann!