Arnar Milutin með fullt hús á Þriðjudagsmóti!



Arnar Milutin Heiðarsson sigraði með fullu húsi á Þriðjudagsmótinu þann 24. janúar síðastliðinn. 34 skákmenn mættu til leiks og þar af 15 sem ekki hafa skákstig – mótin hafa sýnt sig og sannað sem “útungarstöð” nýrra íslenskra skákmanna á öllum aldri á færibandi! Margir þessara 15 hafa einnig mætt undanfarið og komast því á Fide listann nú þann 1. febrúar.

Sigur Arnars var sannfærandi en hann fékk ekki tækifæri til að tefla við stigahæstu menn mótsins. Ef þeir misstíga sig snemma þá eru fimm skákir oft ekki nóg til að þeir efstu á upphafslista mætist yfir höfuð.

Í öðru sæti varð Kristófer Orri Guðmundsson með 4.5 vinnig. Halldór Kristjánsson, Jón Oddur Jónsson og Magnús Sigurðsson fengu 4. vinninga.

Verðlaun fyrir bestan árangur miðað við stig hlaut Jón Oddur.

Öll úrslit og stöðu mótsins má nálgast á chess-results.

Næsta Þriðjudagsmót verður þann 31. janúar og hefst að venju stundvíslega þegar klukkan slær 19:30.