Jóladagatal TR – #12 KjötkrókurÁ hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

kjotkrokur

Mynd: Búi Kristjánsson

Kjötkrókur er landsþekktur fyrir heppni sína. Hann hefur stundum grísað svo svakalega á andstæðinga sína að það hefur valdið uppþoti á skákviðburðum. Grýla segir að hann sé grísari af guðs náð. Aðspurður segir Kjötkrókur sjálfur að þessi heppni sín stafi af því að hann sé í eðli sínu þjófóttur, enda var hann áður fyrr þekktur fyrir að stela kjötlærum af bæjum. Þessa dagana stelur hann bara sigrum við taflborðið. Þegar Kjötkrókur mætti öðrum þekktum grísara, sterkum alþjóðlegum meistara úr Garðabæ, í gamniskák á kaffistofunni í TR, voru áhorfendur spenntir að sjá hvor myndi grísa á hvorn. (Á þessum tímapunkti hafði Birna á kaffistofunni fyrirgefið Kjötkróki það að hafa eitt sinn stolið flatköku með hangikjöti úr sjoppunni í TR).

Garðbæingurinn, sem stýrði svörtu mönnunum, hafði grísað á Kjötkrók í miðtaflinu og unnið af honum drottninguna. Svartur lék síðast …Hg8 til þess að hóta hvíta biskupnum á g2 og koma um leið í veg fyrir allar fráskákir sem Kjötkrókur hafði undirbúið. En nú var komið að Kjötkróki að grísa.

kjotkrokur-stodumynd

Hvernig snéri Kjötkrókur taflinu sér í vil og mátaði andstæðing sinn í 2 leikjum? (Garðbæingurinn tók tapinu vel, enda er hann mikill heiðursmaður við taflborðið)