Jóhann Arnar sigraði á þriðja móti Bikarsyrpunnar.



Það var hart barist í lokaumferðum þriðja mótsins í Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur sem lauk í dag. Fyrir lokaumferðina var Aron Þór Mai, sigurvegarinn úr Bikarsyrpu 2 einn efstur með fullt hús, fjóra vinninga af fjórum mögulegum. Tveir keppendur þeir Jóhann Arnar Finnsson og Halldór Atli Kristjánsson komu næstir hálfum vinning á eftir. Átta keppendur voru með þrjá vinning fyrir lokaumferðina og því ljóst að margir áttu kost á verðlaunasæti.

Það var því spennuþrungið andrúmsloft þegar ungu meistararnir hófu tafl seinnipartinn í dag. Jóhann Arnar og Aron Þór mættust þá og ljóst að sigurvegarinn úr þeirri viðureign myndi sigra mótið.

Það er skemmst frá því að segja að Jóhann stýrði hvítu mönnunum til sigurs og sigraði því þriðja mót syrpunnar með 4 ½ vinning. Halldór Atli gerði engin mistök gegn Jason Andra Gíslasyni og sigraði örugglega. Þar með skaust hann upp fyrir Aron Þór og í annað sætið, jafn Jóhanni Arnar að vinningum en neðar á stigum. Fimm keppendur enduðu með fjóra vinninga og af þeim varð Aron Þór efstur á stigum og hlaut bronsið.

Ellefu keppendur luku keppni með 3 vinninga sem er til marks um hve jafnt og skemmtilegt mótið var. Nokkrir ungir keppendur sem voru að taka þátt í sínu fyrsta móti voru með og þótt vinningarnir hafi kannski ekki orðið margir þá gengu þeir frá borði reynslunni ríkari.

Í heild gékk mótið afar vel og skemmtilegt að sjá þær miklu framfarir sem margir sýndu frá því að fyrsta mótið var haldið í haust. Einnig er mjög ánægjulegt að sjá síaukinn fjölda ungra skákmanna taka þátt mót frá móti. Lokamót syrpunnar fer fram í byrjun maí og þá kemur í ljós hver verður Bikarsyrpumeistari Reykjavíkur 2015.

Bikarsyrpa Taflfélagsins hefur fengið frábærar viðtökur og þar keppa jafnt reynsluboltar sem og þeir krakkar sem eru að stíga sín fyrstu spor í kappskákmótum. Tímamörkin 30 mínútur +30 sek á leik henta þessum hóp afar vel. Mótið uppfyllir öll skilyrði alþjóðaskáksambandsins FIDE og er reiknað til alþjóðlegra og íslenskra skákstiga.

Nánari úrslit og lokastöðu mótsins má finna hér

Fjöldi mynda frá mótinu mun fljótlega verða aðgengilegur hér á síðu félagsins sem og á facebooksíðu þess.

Það er síðan ekkert lát á öflugu mótahaldi Taflfélags Reykjavíkur, en næstkomandi sunnudag fer fram Barna-, unglinga- og stúlknameistaramót Reykjavíkur í skákhöllinni.  Fastlega má gera ráð fyrir að margir af þeim efnilegu krökkum sem tóku þátt í Bikarsyrpunni muni þá spreyta sig að nýju á reitunum 64!