Taflfélag Reykjavíkur sendi tvær barnasveitir til leiks í Íslandsmót skákfélaga þetta haustið. Alls tefldu 20 börn með sveitunum tveimur og var árangurinn framar vonum.
A-sveitin var skipuð reynslumiklum börnum sem hafa öll teflt í kappskákmótum undanfarin ár. Það reyndist mikilvægt því sveitin mætti mjög sterkum andstæðingum og því var á brattan að sækja. Liðið sýndi og sannaði getu sína og hæfileika með því að vinna tvær viðureignir af fjórum. Í 1.umferð var C-sveit Víkingaklúbbsins lögð 4-2 og í 2.umferð vannst frábær sigur á C-sveit Vinaskákfélagsins 3,5-2,5. Í næstu tveimur umferðum mætti A-sveitin okkar tveimur efstu sveitum 4.deildar, B-sveit Víkingsklúbbsins og Skákfélagi Sauðárkróks. Báðar viðureignir töpuðust 1-5, en það verður að teljast afrek út af fyrir sig að ná vinningum af þessum sterku andstæðingum.
A-sveitin var leidd áfram af Arnari Milutin Heiðarssyni sem í fyrsta sinn tefldi á 1.borði. Arnar Milutin hefur verið einkar iðinn við taflborðið undanfarin misseri og hefur pilturinn náð athygliverðum árangri. Í þeim fjórum skákum sem Arnar Milutin tefldi þá mætti hann alltaf stigahærri andstæðingi. Engu að síður nældi hann sér í 1,5 vinning og gerði sér lítið fyrir og vann Jón Arnljótsson (1856) en á þeim munar tæplega 500 skákstigum. Flesta vinninga A-sveitarinnar fékk Benedikt Þórisson en hann dróg 2 vinninga að landi í fjórum skákum. Benedikt vann tvo stigalægri andstæðinga en varð að játa sig sigraðan gegn tveimur mun stigahærri skákmönnum. Kristján Dagur Jónsson hlaut 1,5 vinning þrátt fyrir að tefla við stigahærri andstæðinga í öllum sínum fjórum skákum. Til marks um hve erfiðir andstæðingar geta beðið barnanna í 4.deild þá mætti Kristján Dagur einum skákmanni með 2230 skákstig -þar munar tæplega 1000 skákstigum! Freyja Birkisdóttir mætti líka stigahærri skákmanni í öllum fjórum viðureignum sínum. Þrátt fyrir það tapaði Freyja aðeins einni skák sem er framúrskarandi árangur. Freyja gerði meðal annars jafntefli við Jón Úlfljótsson (1720) en á þeim munar heilum 534 skákstigum. Alexander Björnsson vann eina skák en tapaði tveimur gegn mun stigahærri andstæðingum. Alexander er að komast á skrið aftur eftir stutt hlé en hann hefur mætt mjög vel á afreksæfingar í Taflfélaginu þetta haustið. Árni Ólafsson tapaði báðum sínum skákum gegn skákmönnum með um og yfir 1600 skákstig. Árni tefldi auk þess með B-sveitinni gegn skákmanni með ríflega 1800 skákstig og var hársbreidd frá sigri eftir langa og stranga skák. Árni tefldi skákina feykilega vel og sýndi aðdáunarverða einbeitingu þó skákinni hafi ekki lokið fyrr en klukkan var langt gengin í miðnætti. Þá vann Björn Magnússon sína einu skák sem hann tefldi fyrir A-sveitina. Þau Svava Þorsteinsdóttir og Daníel Ernir Njarðarson tefldu sitthvora skákina fyrir A-sveitina og gerðu bæði jafntefli gegn mun stigahærri andstæðingum. Þau voru svo í kjölfarið flutt upp í fullorðinssveit til þess að styrkja hana í toppbaráttu 4.deildar.
B-sveit TR átti undir högg að sækja eins og við var að búast enda liðsmenn margir hverjir að stíga sín fyrstu skref í kappskákmótum fullorðinna. Engu að síður var baráttan og einbeiting barnanna aðdáunarverð og fjórir vinningar komu í hús. Tveir af andstæðingum B-sveitarinnar voru mjög sterkir, enda töpuðust þær viðureignir 0-6. Sveitin náði tveimur vinningum gegn D-sveit Akureyrar (fullorðinssveit) og tveimur vinningum gegn A-sveit Skákfélagsins Hugins (unglingasveit). B-sveitin okkar var að stórum hluta skipuð ungum og efnilegum stúlkum sem hafa æft saman undir stjórn Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur. Þær sem tefldu í B-sveitinni voru Batel Goitome Haile, Anna Katarina Thoroddsen, Elsa Kristín Arnaldardóttir, Elísabet Xiang Sveinbjörnsdóttir, Iðunn Helgadóttir, Katrín María Jónsdóttir og Esther Lind Valdimarsdóttir. Auk þeirra tefldi hinn ungi og efnilegi Bjartur Þórisson þrjár skákir með B-sveitinni, Björn Magnússon tefldi einnig þrjár skákir, Árni Ólafsson tefldi tvær skákir og Tristan Theodór Thoroddsen tefldi eina skák.
Flesta vinninga B-sveitarinnar fékk Batel Goitom Haile. Batel vann tvær skákir af þeim fjórum sem hún tefldi og var hársbreidd frá því að vinna þá þriðju, gegn 1600 stiga manni. Elísabet Xiang Sveinbjörnsdóttir tefldi einnig vel og fékk 1 vinning í þremur skákum. Elísabet sýndi greinileg merki um framfarir og kemur það okkur í Taflfélaginu ekki á óvart því Elísabet hefur verið einkar dugleg við að sækja afreksæfingar hjá TR það sem af er hausti.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum tveimur skáksveitum í seinni hluta Íslandsmótsins sem fyrirhugaður er í mars. Sé tekið mið af því hve dugleg börnin eru að mæta á skákæfingar hjá okkur í Faxafeninu þá skyldi engan undra ef vinningarnir verða enn fleiri í mars. Framtíðin er svo sannarlega björt!
Nánari upplýsingar um mótið má finna á chess-results.