Sex með fullt hús eftir fyrstu tvær umferðir Haustmótsins



Lítið var um óvænt úrslit í 2.umferð Haustmótsins sem fram fór síðastliðið föstudagskvöld. Á efsta borði lagði stórmeistarinn eitilharði Hjörvar Steinn Grétarsson (2567) hinn litríka Kristján Örn Elíasson (1869) að velli með hvítu mönnunum á meðan alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson (2362) stýrði svarta hernum til sigurs gegn Herði Aroni Haukssyni (1859). Titilhafarnir Hjörvar Steinn og Einar Hjalti eru því með fullt hús eftir fyrstu tvær umferðirnar. Aðrir skákmenn með fullt hús eru Magnús Pálmi Örnólfsson (2227), Þorvarður Fannar Ólafsson (2164), Björgvin Víglundsson (2137) og Jóhann Ragnarsson (2032). FIDE-meistarinn Oliver Aron Jóhannesson (2272) tók yfirsetu í fyrstu tveimur umferðunum og hefur því einn vinning.

Þó svo lítið hafi verið um óvænt úrslit þá er ekki þar með sagt að stigalægri skákmaður hafi ekki sigrað stigahærri andstæðing. Hinn ungi og áhugasami Árni Ólafsson (1217) vann Hjálmar Hrafn Sigurvaldason (1498) með hvítu og sýndi þar að ástundun og vinnusemi skilar sér ávallt með góðum úrslitum fyrr eða síðar. Árni hefur því 1,5 vinning eftir að hafa tekið yfirsetu í fyrstu umferð.

3.umferð verður tefld á sunnudag og verða klukkur settar í gang klukkan 13:00. Þá mætast meðal annars Magnús Pálmi og Hjörvar Steinn og Einar Hjalti og Jóhann. Árni Ólafsson fær það erfiða hlutskipti að tefla með svörtu gegn Oliver Aroni Jóhannessyni. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í Faxafeninu og gæða sér á ljúffengu Birnukaffi ásamt því að fylgjast með baráttunni í skáksalnum.

Úrslit og staða: Chess-results

Skákir HTR (pgn): #1, #2