HTR #7: Stórmeistarinn í stuðiIMG_9384

Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson er efstur þegar tvær umferðir lifa af Haustmótinu.

Toppbaráttan skýrðist er 7.umferð Haustmótsins var tefld síðastliðið miðvikudagskvöld. Stórmeistarinn sýndi mátt sinn og megin á efsta borði, Bolvíkingurinn fylgir honum eins og skugginn, Hlíðaskólapiltinum halda engin bönd og skeggsíði skákdómarinn hafði gaman að þessu.

Á efsta borði fór fram athyglisverð viðureign þar sem Rimaskólaprinsinn Oliver Aron Jóhannesson (2272) stýrði hvítu mönnunum gegn Rimaskólabaróninum Hjörvari Steini Grétarssyni (2567). Stórmeistarinn mætti til leiks með vel slípuð heilahvel gegn FIDE-meistaranum og vann góðan sigur í þessari orrustu fyrrum nemenda Rimaskóla. Bolvíska undrabarnið, Magnús Pálmi Örnólfsson (2227), vann mikilvægan sigur í toppbaráttunni gegn Jóhanni H. Ragnarssyni (2032) og fyrir vikið nartar hann enn í hæla stórmeistarans. Vestfirskt hælsæri er þó ekki líklegt til þess að stöðva stórmeistarann ef marka má framgang hans í síðustu tveimur umferðum.

20170920_193741

Bréfskákgúrúinn Einar Hjalti Jensson (2362) sýndi hinum skeggjaða skákdómara Kristjáni Erni Elíassyni (1869) enga miskun á 3.borði. Skákáhugamenn sem lögðu leið sína í Faxafenið höfðu á orði að Kristján Örn væri trúlega að tefla eftir bréfskákartímamörkum því strax í fjórða leik sökk hann í tankinn og sást ekki aftur fyrr en tæplega hálfri klukkustund síðar. Þá æddi hann inn á kaffistofu, skenkti íbygginn á kaffibollann og hóf líflega umræðu um sameiningar taflfélaga. Skömmu síðar settist Kristján Örn aftur við taflborðið, lék nokkra úthugsaða leiki og hvarf svo á ný í téðan tank í ríflegan þriðjung úr klukkustund. Einar Hjalti var á sama tíma sallarólegur á kaffistofunni enda búinn að reikna allt sem hægt var að reikna á taflborðinu. Þó svo Kristján Örn hafi staðið tómhentur upp frá þessari skák, þá skal ekki útiloka að í hugarfylgsnum hans þetta kvöld hafi fæðst ný hugmynd að athyglisverðri sameiningu taflfélaga.

IMG_9380

Páll Andrason stillti upp athyglisverðri peðabyggingu.

Á ákveðnum tímapunkti í þessari 7.umferð beindust allra augu að viðureign Björgvins Víglundssonar (2137) og Páls Andrasonar (1800). Einkum og sér í lagi vegna þeirrar sérstöku taflstöðu sem þeir buðu gestum upp á. Á kaffistofunni kannaðist engin við þetta afbrigði sem Páll beitti en skákáhugamenn voru þó á einu máli um að svartur hlyti að vera að undirbúa að leika 19…h6. Annað væri beinlínis rangt! Björgvin lét þennan varnarmúr svarts ekki á sig fá og vann skákina.

20170920_204440

Staðan magnaða í skák Björgvins Víglundssonar og Páls Andrasonar.

Árni Ólafsson (1217) sem á daginn les skólabækur í Hlíðaskóla hélt áfram sínu góða gengi í mótinu. Hann sigraði Tryggva K. Þrastarson (1325) og hefur því halað inn fjóra vinninga í skákunum sjö. Sannarlega frækin framganga hjá Árna sem situr í 9.-14.sæti og mun hann ef að líkum lætur hækka verulega á stigum á næsta stigalista. Benedikt Þórisson (1065) vann góðan sigur gegn Ríkhard Skorra Ragnarssyni (1067) með hvítu og hífir sig þar með upp í 3 vinninga. Þá gerði Joshua Davíðsson (1414) gott jafntefli gegn Jóni Úlfljótssyni (1711) með svörtu.

Nú þegar tvær umferðir eru eftir af Haustmótinu þá er Hjörvar Steinn efstur með 6 vinninga og Magnús Pálmi fylgir fast á eftir með 5,5 vinning. Þeir Einar Hjalti, Þorvarður Fannar og Björgvin koma næstir með 5 vinninga. 8.umferð mótsins verður ræst klukkan 19:30 á föstudag. Þá mætast meðal annars Hjörvar og Jóhann, Einar Hjalti og Magnús Pálmi, og Þorvarður og Björgvin. Birnukaffi verður vitaskuld opið þar sem Birna Halldórsdóttir slær taktinn af sinni alkunnu snilld og bakar sínar gómsætu og kærleiksríku vöfflur. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að líta við í Faxafenið og taka þátt í Haustmótsgleðinni.

 

Úrslit, staða og pörun 8.umferðar: Chess-Results

Skákir mótsins (pgn): Chess-Results (1.-6.umferð) + 7.umferð