Margar spennandi skákir voru tefldar í 5.umferð Haustmótsins síðastliðið föstudagskvöld. Forystusauðir A-flokks slíðruðu sverð sín snemma, þrír eru enn taplausir í B-flokki, engin jafntefli hafa sést í 20 skákum C-flokks og fjórir eru jafnir á toppi opna flokksins.
Skákunnendur biðu margir hverjir óþreyjufullir eftir toppslag Björns Þorfinnssonar og Vignis Vatnars Stefánssonar í A-flokki. Biðin reyndist mun lengri en skák þeirra félaga. Friðarviðræður þeirra hófust eftir 6 leiki og sömdu þeir jafntefli áður en fyrsta vafflan var komin úr vöfflujárni Birnu. Jóhanni Ingvasyni mistókst að notfæra sér flug friðardúfanna en með sigri hefði hann náð Birni og Vigni að vinningum. Jóhann lenti í klóm Arons Þórs Mai sem gaf Jóhanni engin grið og vann með hvítu.
Í B-flokki er Alexander Oliver Mai efstur með 4,5 vinning. Í humátt á eftir honum með 4 vinninga kemur knattspyrnumaðurinn snjalli Stephan Briem. Hinn gamalreyndi flækjusmiður, Eiríkur K. Björnsson, er þriðji með 3,5 vinning. Allir eru þeir taplausir þegar tvær umferðir eru eftir.
Í C-flokki heldur æsispennandi toppbaráttan áfram því bæði Arnar Milutin Heiðarsson og Jón Eggert Hallsson unnu viðureignir sínar. Framganga stigalægsta keppanda flokksins hefur vakið töluverða eftirtekt því Batel Goitom Haile hefur nú unnið þrjár síðustu skákir sínar og er aðeins einum vinning á eftir Arnari og Jóni. Batel og Arnar mætast í næstu umferð.
Í opna flokknum sá Örn Alexandersson um að gera toppbaráttuna æsispennandi. Örn vann Joshua Davíðsson með svörtu og eru þeir nú efstir og jafnir með 4 vinninga. Á toppinn hafa einnig komið sér fyrir þeir Kristján Dagur Jónsson og Adam Omarsson.
6.umferð sem jafnframt er sú næstsíðasta verður tefld á sunnudag og verða klukkur settar í gang klukkan 13.
Nánari upplýsingar um úrslit og stöðu má finna á Chess-Results. Þar eru einnig að finna allar skákir mótsins sem Daði Ómarsson hefur gert aðgengilegar skákáhugamönnum.