Hörð rimma um Íslandsmeistaratitilinn



Að loknum fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga er lið Taflfélags Reykjavíkur í öðru sæti, hálfum vinningi á eftir liði Hugins.  B-lið félagsins á í harðri fallbaráttu og vermir botnsætin ásamt KR-ingum og B-liði Akureyringa.  C-lið TR-inga skipar annað sætið í annari deild og í þriðju deild er D-liðið í 4. sæti en E-liðið er í botnbaráttu að þessu sinni.  Tvö glæsileg barna- og unglingalið berjast í fjórðu deild og eru liðin sem stendur í 6. og 7. sæti af 17.

Venju samkvæmt var teflt við góðar aðstæður í Rimaskóla og hófst keppni á fimmtudagskvöld þegar tíu lið fyrstu deildar mættu til leiks en þar eru tefldar níu umferðir.  Keppni í öðrum deildum hófst á föstudagskvöld en átta lið keppa í annari deild, fjórtán í þriðju deild og sautján í þeirri fjórðu.  Vinningafjöldi ræður úrslitum í efstu deildunum tveimur þar sem allir keppa við alla en í þriðju og fjórðu deild er keppt eftir svissneska kerfinu og gilda þar svokölluð matchpoints þar sem 2 stig fást fyrir sigur liðs, 1 fyrir jafntefli og 0 fyrir tap – þannig skiptir stærð sigurs minna máli en ella.

A-liðið

Ákvörðun var tekin um að tefla eingöngu fram innlendum meisturum að þessu sinni og leiddi stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson sterkt A-lið félagsins en alls tefldu tíu skákmenn með liðinu þar sem meðalstig voru 2470.  Í fyrstu umferð vannst 7-1 stórsigur á skemmtilegu liði KR-inga en stigamunur var mikill á öllum borðum.  Alþjóðlegi meistarinn og verðandi stórmeistari Guðmundur Kjartansson og stórmeistarinn Margeir Pétursson gerðu jafntefli en aðrar viðureignir unnust.

Í annari umferð sigraði svo liðið eigið B-lið með fullu húsi vinninga og í þriðju umferð vannst góður 5,5-2,5 sigur á þéttu liði Akureyringa þar sem Hannes lagði Áskel Örn Kárason á fyrsta borði.  Margeir vann líkt og alþjóðlegu meistararnir Arnar E. Gunnarsson og Þorfinnsbræðurnir Bragi og Björn.

Annar 5,5-2,5 sigur hafðist í fjórðu umferð á B-liði Hugins sem var vel skipað þar sem Einar Hjalti Jensson stóð vaktina á fyrsta borði þó hann hafi setið mestallan tímann.  Sigur vannst á þremur efstu borðunum hvar Hannes tefldi ásamt alþjóðlegu meisturunum Guðmundi Kjartanssyni og Jóni Viktori Gunnarssyni, og þá sigraði Björn einnig á 6. borði.

Í fimmtu umferð var ekki brugðið útaf vananum og ákveðið að halda í sömu úrslit því enn einn 5,5-2,5 sigurinn kom í hús, nú gegn grjóthörðu liði Fjölnismanna sem teflir fram stórmeistaranum Héðni Steingrímssyni á fyrsta borði.  Innan liðsins er aukinheldur að finna Rimaskólatríóið ógurlega sem er skipað þeim Degi Ragnarssyni, Oliver Aroni Jóhannessyni og Jóni Trausta Harðarsyni en það þykir almennt ekki eftirsóknarvert að mæta þeim köppum.  Úr varð hin skemmtilegasta viðureign þar sem Hannes stýrði svörtu gegn Héðni og lenti snemma í fórnarsulli þess síðarnefnda og lagði upp laupana skömmu síðar.  Þremur skákum lauk með skiptum hlut en Þorfinnsbræður unnu ásamt Margeiri og Guðmundi en Björn og Bragi voru drjúgir og skiluðu saman 9,5 vinningi af tíu í hús – ansi gott það.

Niðurstaðan er því 31,5 vinningur, hálfum vinningi minna en Huginsmenn og líkt og við var búist stendur titilbaráttan á milli þessara tveggja liða því langt er í næstu keppinauta.  Það lítur því út fyrir afar spennandi seinni hluta í vor en liðin mætast í innbyrðis viðureign í áttundu og næstsíðustu umferð.

B-liðið

Eftir að hafa komið upp um deild var ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir B-liðið í deild hinna bestu og það kom svo sannarlega á daginn.  Alls kepptu fjórtán skákmenn með B-liðinu þar sem meðalstig voru 2197 en í fyrstu umferð varð liðið að sætta sig við 3,5-4,5 tap gegn B-liði Akureyringa þar sem engin af viðureignum þremur efstu borðanna vannst þrátt fyrir nokkurn stigamun.  Sigur vannst á einu borði þar sem Þorvarður Fannar Ólafsson lagði hinn margreynda Þór Valtýsson.  Eftir ofangreint stórtap gegn A-liðinu var komið að mikilvægri viðureign gegn KR-ingum í þriðju umferð og endaði sú rimma 4-4 þar sem Vignir Vatnar Stefánsson vann góðan sigur á Harvey Georgssyni en þar munar meira en 200 Elo-stigum.  Björgvin Víglundsson og Hilmir Freyr Heimisson unnu einnig sína andstæðinga.

Snúin viðureign við A-lið Akureyringa tapaðist 2-6 í fjórðu umferð en fjögur góð jafntefli náðust á borðum þar sem stigamunur var allnokkur.  Góð barátta gegn B-liði Hugins í fimmtu umferð tapaðist engu að síður 3-5 þar sem ungu mennirnir, Hilmir Freyr Heimisson og Vignir Vatnar Stefánsson, unnu sínar viðureignir.  Hörð fallbarátta blasir því við B-liðinu sem hefur 12,5 vinning ásamt KR-ingum og B-liði Akureyringa.  Ungu ljónin, Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson stóðu sig fádæma vel og hækka báðir mikið á stigum.  Þá var sérstaklega gaman að sjá Björgvin koma aftur á fullt fyrir félagið en hann tefldi allar skákirnar og laut aðeins einu sinni í gras.

Staðan í 1. deild:

1

C-liðið

Hinir margslungnu C-liðsmenn fóru örugglega upp í aðra deild fyrir yfirstandandi tímabil og eru eftir fyrri hlutann í bullandi séns um að komast upp í 1. deild.  Fari svo að B-liðið falli gæti komið upp sú sérkennilega staða að A- og C-lið félagsins verði í fyrstu deild en B-liðið í annari deild eða þá að félagið eigi þrjú lið í fyrstu deild haldi B-liðið sæti sínu.  Það er þó ekki leyfilegt og allt eru þetta ennþá bara skemmtilega pælingar enda mikið eftir af Íslandsmótinu.

Átta vaskir félagsmenn kepptu með C-liðinu og ánægjulegt var að sjá tvíburana ógnarsterku, Björn Hólm og Bárð Örn Birkissyni, leiða sveitina.  Liðið byrjaði með mikilvægum 3,5-2,5 sigri á liði Hauka þar sem Ólafur Kjartansson, Eiríkur K. Björnsson og Jon Olav Fivelstad unnu sínar viðureignir.  Í annari umferð vannst öruggur 4,5-1,5 sigur á Borgarnesi en þar lönduðu sigrum Bárður Örn, Björn Jónsson formaður TR, Eiríkur og Jon Olav.  Þess má geta að með sigrinum fór formaðurinn aftur yfir 2000 Elo-stig sem hefur verið markmið allt frá því að Gauti nokkur Jónsson straujaði hann á einu af skákmótum félagsins fyrir ekki margt löngu.  Liðsstjórar og stjórn TR óska Birni til hamingju með þennan áfanga.

Önnur mikilvæg viðureign var háð í þriðju umferð þegar liðið settist gegnt liðsmönnum Garðbæinga sem tefldu líka fram Birni Jónssyni – nokkuð sérkennilegt og stendst væntanlega ekki lög Íslandsmótsins.  Úr varð æsispennandi barátta sem lauk með 3-3 jafntefli þar sem Bárður Örn hafði sigur á fyrsta borði gegn téðum Birni og þá vann Ólafur einnig sigur.

Andstæðingur fjórðu umferðar var sterkasta lið deildarinnar, lið Reykjanesbæjar með alþjóðlega meistarann Björgvin Jónsson á fyrsta borði.  Jafntefli varð niðurstaðan á borðum 3-6 og á fyrsta borði varð Björn Hólm að játa sig sigraðan eftir mikla baráttu gegn Björgvini en á öðru borði hélt Bárður Örn uppteknum hætti og lagði suðurnesjatröllið Jóhann Ingvason.  Í endatafli höfðu báðir kóng og hrók ásamt peðum en Bárður Örn peði meira og sýndi Bárður fádæma öryggi í úrvinnslu stöðunnar og hafði að lokum kóng, hrók og peð gegn kóngi og hróki Jóhanns.  Lokahnykkurinn vafðist ekki fyrir Bárði sem sýndi að hann kann grunnatriði hróksendatafla upp á tíu.  Niðurstaðan varð því 3-3 jafntefli gegn sterku liði sem stefnir hraðbyri á fyrstu deildina.

Það er morgunljóst að C-liðið á góða  möguleika á að komast upp úr annari deildinni enda er liðið í öðru sæti með 14 vinninga, hálfum vinningi meira en lið Garðbæinga, og hefur þegar mætt liðunum í fyrsta, þriðja og fjórða sæti.  Bárður Örn átti magnaðaðan sprett, vann þrjár skákir af fjórum og hækkar um 85 Elo-stig fyrir vikið.

Staðan í 2. deild:

2

D-liðið

Mætt aftur til leiks í þriðju deild hefur D-liðið þegar blandað sér í baráttuna um að komast upp í aðra deild.  Líkt og hjá C-liðinu tefldu alls átta skákmenn með liðinu sem hóf baráttuna með flottum 4,5-1,5 sigri gegn B-liði Reykjanesbæjar þar sem Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Eggert Ísólfsson, Agnar Darri Lárusson og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir unnu sínar viðureignir.

Toppbaráttu gegn B-liði KR-inga í annari umferð lauk með 3-3 jafntefli eftir mikla spennu.  Þórir Benediktsson og Eggert Ísólfsson lögðu sína andstæðinga og tveimur skákum lauk með skiptum hlut.  Í þriðju umferð vannst góður 4-2 sigur á Siglfirðingum þar sem Eggert hélt áfram á sigurbraut og þá unnu Gauti Páll Jónsson, Halldór Garðarsson og Magnús Kristinsson.

Erfitt verkefni beið liðsins í fjórðu umferð þegar andstæðingurinn var lið Vinaskákfélagsins með meistara Róbert Lagerman á fyrsta borði en ljóst er að lið þeirra fer nánast örugglega upp um deild.  Niðurstaðan var óþarflega stórt 0,5-5,5 tap þar sem aðeins Sigurlaug hélt jafntefli eftir hetjulega baráttu.  D-liðið er því sem stendur í 3.-5. sæti með 5 stig, aðeins stigi minna en C-lið akureyrar, og því ljóst að það stefnir í æsilega baráttu um það hverjir fylgja Vinafélaginu upp.

E-liðið

Róður E-liðsins í þriðju deildinni er þungur en níu félagsmenn börðust með liðinu sem kom upp í þriðju deildina eftir að Vestmannaeyingar drógu lið sitt úr keppni  Þess má geta að hinir ungu og efnilegu afreksdrengir Mykhaylo Kravchuk, Aron Þór Mai og Róbert Luu spreyttu sig nú í fyrsta sinn fyrir utan barna- og unglingaliðin og stóðu sig allir með miklum sóma.  Æsileg fallbarátta blasir við liðinu en allt getur gerst og nóg er eftir í pottinum.

Staða efstu liða i 3. deild:

3

Barna- og unglingalið A og B

Það er alltaf gaman að sjá hversu vel yngsta kynslóðin stendur sig á Íslandsmótinu og að þessu sinni sendi félagið tvær sveitir til leiks en alls tefldu hátt í 20 ungmenni fyrir hönd þess.  Margir af krökkunum hafa áður teflt fyrir hönd félagsins á meðan aðrir eru að þreyta frumraun sína á þeim vettvangi.  Því fylgir mikið stolt að tefla fyrir félagið sitt og með liðsmönnum sínum, það sést vel á fasi krakkanna og gleðinni sem skín úr augum þeirra, þá sérstaklega þegar sigur vinnst.

Skákir á þessu stigi geta klárast fljótt, kolunnar stöður geta snögglega snúist og tapast, umhugsunartíminn er misjafnlega nýttur.  Allt eru þetta eðlilegir hlutir á byrjunarstigum skákvegarins – með hverri skák lærist eitthvað nýtt og Íslandsmót skákfélaga er frábær vettvangur fyrir þann lærdóm.  Frammistaða krakkanna var afbragðsgóð og eru liðin í 6. og 7. sæti og ljóst að þau mæta ákveðin til leiks í seinni hlutann.

Staða efstu liða í 4. deild:

4

Taflfélag Reykjavíkur er mjög stolt af liðunum sjö og þeim tugum skákmanna á öllum aldri og öllum getustigum sem kepptu með félaginu.  Flestir af liðsmönnunum hafa verið með TR svo árum skiptir og mæta til leiks á hvert einasta Íslandsmót.  Það skiptir félagið miklu máli og okkur finnst mikilvægt að koma því til skila til okkar félagsmanna – ykkar stuðningur skiptir okkur svo sannarlega máli.

Við vonum að þið getið öll verið með okkur aftur þegar seinni hluti Íslandsmótsins fer fram helgina 3.-5. mars 2016.  Munið að merkja í dagatalið – við getum fullyrt að við í TR höfum nú þegar gert það.

Takk fyrir þátttökuna – Áfram TR!