Þremur umferðum lokið í Öðlingamótinu



28 þátttakendur tefla í TR á miðvikudagskvöldum. Fyrirfram eru Róbert Lagerman, Þorvarður Ólafsson og Lenka Ptacnikova sigurstranglegust. Fyrstu tvær umferðirnar voru meira eða minna eftir bókinni. Samt vann Jóhann Jónsson Kjartan Ingvarsson í fyrstu umferð. Jóhann hefur ekki sést við kappskáksborðið í 30-40 ár. Hann vann sannfærandi sigur í taktískri skák.
Margar athyglisverðar skákir tefldust í 3. umferð. Á fyrsta borði hafði “Don Roberto” betur á móti Haraldi Baldurssyni í endatafli með hrók, biskup og þrjú peð hjá báðum. Veikt peð á d5 hjá hvítum og að auki stanslaust tímahrak gerði út um skákina. Þorvarður og Lenka sömdu jafntefli með þráleik þar sem Lenka hafði eitt, tvö aukapeð en var haldin í spennutreyju lengst af í skákinni.

Í bakgrunni má sjá rykvarðan Friðrik og rykvarin fánann

Í bakgrunni má sjá rykvarðan Friðrik og rykvarinn fánann

Páll Þórsson fékk tækifæri til að “brillera” á þriðja borði – þar sem Loftur Baldvinsson var of gráðugur og át eitraðan mann og varð í framhaldinu mát. Loftur var reyndar manni undir og þetta var kannski eini möguleikinn til að reyna að jafna taflið.
Oddgeir Ottesen virtist hafa talsvert betri stöðu á móti Óskari Maggasyni. En Óskar náði virku mótspili og á tímabili var skákin mjög tvísýn áður en hún leystist upp í jafntefli.

odl3
Halldór Garðarsson og Ólafur Gísli Jónsson sömðu líka jafntefli – en sú skák var talsvert betri á svart um tíma. Þór Valtýsson vann Björgvin Kristbergsson eftir að Björgvin lék of marga riddaraleiki í röð og gleymdi að huga betur að stöðunni.
Sigurjón Haraldsson tíndi peðin smá saman af Jóhanni Jónssyni og vann sannfærandi sigur. Það sama var upp á teningnum hjá Sigurlaugu Friðþjófsdóttur og Kristjáni Geirssyni. Kristján vann sannfærandi sigur með svörtu.
Sigurjón Þór Friðþjófsson hefur telft undir getu svo langt í mótinu. Nú tapaði hann á móti Auðbergi Magnússyni. Kjartan Ingvarsson og Óskar Long Einarsson sömdu jafntefli. Jón Úlfljótsson var of bjartsýnn á móti Kristjáni Erni Elíassyni. Hann veikti kóngsstöðunni óþarflega mikið og sat uppi með tapaði stöðu.
Jón Eggert Hallsson var í bjartsýniskasti á móti Lárusi Bjarnasyni – fórnaði hróki fyrir littlar bætur og varð að horfast í augu við að Lárus tefldi stöðuna af öryggi og gaf engin færi á sér.
Aðalsteinn Thorarensen náði kverkataki á kóngsstöðu Jóhanns Valdimarssonar og sleppti aldrei. Góður sigur á hvítt.

Úrslit, stöðu og pörun má nálgast á chess-results.