HM ungmenna: Vignir sigraði í lokaumferðinniHeimsmeistaramóti ungmenna í Durban, S-Afríku, lauk í dag þegar ellefta og lokaumferðin fór fram.  Okkar maður, hinn ellefu ára Vignir Vatnar Stefánsson, sigraði skákmann frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og lauk því keppni í 33.-44. sæti með 6 vinninga.

Vignir hóf mótið af krafti og hafði 3,5 vinning eftir tvær sigurskákir í röð í fjórðu og fimmtu umferð.  Viðureign sjöttu umferðar virtist svo vera vendipunktur í mótinu en þar stýrði Vignir hvítu mönnunum gegn Bandaríkjameistaranum Aravind Kumar (2152) í skák sem reyndist afar spennandi.  Þegar leið á viðureignina var Vignir kominn með mjög vænlega stöðu en mistókst að finna réttar leiðir að sigrinum og tapaði að lokum.  Eftir það náði hann ekki sama fluginu aftur og það er klárlega ljóst að Vignir Vatnar á mikið inni.

Baráttan í flokki Vignis var mjög jöfn og spennandi og svo fór að fjórir keppendur urðu efstir og jafnir með 8,5 vinning; Víetnaminn Anh Khoi Nuyen (2208), Hvít-Rússinn Viachaslau Zarubitski (2130), Bandaríkjamaðurinn Rayan Taghizadeh (2026) og Armeninn Shant Sargsyan (2077).  Bandaríkjamaðurinn David T. Peng (2011) kom næstur með 8 vinninga en tíu skákmenn fylgdu í kjölfarið með 7,5 vinning.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins