Vignir Vatnar Stefánsson vann öruggan sigur í fyrstu umferð HM ungmenna sem fram fer í Durban, S-Afríku, dagana 20.-29. september. Andstæðingur Vignis var stigalaus skákmaður frá Namibíu og var Vignir ekki í vandræðum með að klára viðureignina sem tók innan við tvær klukkustundir og aðeins 23 leiki. Vignir tefldi hvasst með hvítu, saumaði að andstæðingnum á drottningarvæng og eftir nokkra slæma afleiki svarts í snúinni stöðu gafst hann upp enda liðstap ekki umflúið.
Vignir er númer 30 í stigaröð ríflega eitthundrað keppenda í flokki 12 ára og yngri en alls eru keppendur á mótinu tæplega eittþúsund talsins af 87 þjóðernum. Teflt er í tólf aldursflokkum drengja og stúlkna. Á morgun sunnudag fara fram tvær umferðir og hefst sú fyrri kl. 8 í fyrramálið að íslenskum tíma en sú seinni kl. 15. Tefldar eru 11 umferðir og er tekinn frídagur 24. september.
Hér má sjá sigurskák Vignis úr fyrstu umferðinni.
- Chess-Results
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar(mótssíða)
- Beinar útsendingar (Chessdom)