Í dag var fyrri dagurinn af tveimur þar sem tefldar eru tvær umferðir á HM ungmenna sem fer fram í Durban, S-Afríku. Fyrri andstæðingur Vignis var strákur frá Úkraínu og hefur sá 2280 Elo-stig. Vignir, sem stýrði svörtu mönnunum, beitti Scheveningen afbrigði Sikileyjarvarnar gegn þeim úkraínska og jafnaði taflið auðveldlega. Hvítur fékk ekkert út úr byrjuninni og eftir drottningaruppskipti hafði okkar maður þægilega stöðu á meðan hvítu peðin á kóngsvæng stóðu illa.
Þrátt fyrir nokkuð jafnteflislega stöðu reyndi Vignir að sauma að kóngi svarts á drottningarvæng en þegar upp var staðið komst hann ekki lengra og jafntefli var samið eftir 40 leiki. Góð úrslit hjá Vigni með svörtu gegn sterkum andstæðingi og mikilvæg fyrir hann til að halda sér við toppinn. Skákina úr annarri umferð má nálgast hér.
Í síðari umferð dagsins stýrði Vignir hvítu mönnunum gegn pólskum keppanda með 1992 Elo-stig og því miður beið okkar maður lægri hlut. Vignir kemur vafalaust tvíefldur til leiks í fjórðu umferð og mótið er langt, alls ellefu umferðir, og því nægur tími til stefnu. Skák Vignis úr þriðju umferð er væntanleg síðar.
Fjórða umferð fer fram á morgun og hefst kl. 14 að íslenskum tíma en pörun hennar liggur ekki fyrir.
- Chess-Results
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar(mótssíða)
- Beinar útsendingar (Chessdom)