Hjörvar Steinn Hraðskákmeistari ReykjavíkurHjörvar Steinn Grétarsson, Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2011, og Björn Þorfinnsson, Skákmeistari Reykjavíkur 2011.

Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði á Hraðskákmóti Reykjavíkur sem fór fram síðastliðinn sunnudag í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni12.  Hjörvar, sem hlaut 12 vinninga í 14 skákum (tefldar voru 2×7 umferðir), er því Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2011.  Þetta er í annað sinn sem Hjörvar hreppir titilinn en hann vann einnig árið 2009.

 

Í öðru sæti með 11,5 vinning varð Halldór B. Halldórsson og Sigurður Daði Sigfússon varð þriðji með 10,5 vinning.  36 keppendur tóku þátt sem verður að teljast afbragðs þátttaka, sérstaklega í ljósi þess að úrslitleikurinn á HM í handbolta fór fram á sama tíma.  Til að fullnægja boltaþörf skákmanna brugðu skákstjórar á það ráð að varpa leiknum öðru hvoru upp á tjaldið sem var notað til að birta úrslit skáka og röðun keppenda.  Þannig myndaðist skemmtileg og kósí stemning í Skákhöllinni.

 

Hraðskákmót Reykjavíkur er ávallt lokahnykkurinn á Skákþingi Reykjavíkur ár hvert og í lok hraðskákmótsins fór fram verðlaunaafhending fyrir Skákþingið þar sem Kjartan Már Másson, sölustjóri Kornax, afhenti verðlaunin.  Kornax var aðalstyrktaraðili mótsins annað árið í röð en samstarf fyrirtækisins og Taflfélags Reykjavíkur hefur gengið með afbrigðum vel.  Slíkt samstarf er afar mikilvægt félaginu í mótahaldi og gerir það að verkum að stærstu mót félagsins geta orðið mun veglegri en ella.  Taflfélag Reykjavíkur kann Kornax og forsvarsmönnum þess bestu þakkir fyrir stuðninginn.

 

Björn Þorfinnsson, Skákmeistari Reykjavíkur 2011, ásamt konu sinni og rúmlega 4 mánaða dóttur þeirra, Brynju Mist.

Fjöldi fólks kemur að slíku mótahaldi, oftar en ekki í sjálfboðavinnu, og án þess væru engin skákmót haldin.  Skákstjórn á Kornax mótinu – Skákþingi Reykjavíkur og á Hraðskákmóti Reykjavíkur önnuðust hinir margreyndu alþjóðlegu skákdómarar, Ólafur S. Ásgrímsson og Ríkharður Sveinsson.  Halldór Grétar Einarsson sá um að koma upp búnaði fyrir beinar útsendingar á netinu og Paul Frigge sá um innslátt skáka nánast um leið og hver skák kláraðist.  Jafnframt hafði Paul umsjón með beinu útsendingunum meðan á móti stóð.  Veitingastjórann þarf vart að kynna, því Birna Halldórsdóttir er fyrir löngu orðinn fastur punktur í tilveru skákmanna sem leggja leið sína í Skákhöllina og sér þeim fyrir ljúffengu bakkelsi.  Síðast en alls ekki síst þakkar stjórn T.R. keppendunum fyrir þátttöku sína því án þeirra væru augljóslega engin skákmót haldin.

  • Myndir frá Hraðskákmóti Reykjavíkur
  • Myndir frá KORNAX mótinu – Skákþingi Reykjavíkur
  • Úrslit KORNAX mótsins
  • Skákir KORNAX mótsins
  • Umfjöllun um KORNAX mótið (verðlaunahafar o.fl.)

 Heildarúrslit hraðskákmótsins:

1 Hjörvar Steinn Grétarsson, 12v
2 Halldór Brynjar Halldórsson, 11.5
3 Sigurður Daði Sigfússon, 10.5
4-5 Jóhann Ragnarsson, 9.5
  Jóhann Yngvason, 9.5
6-8 Örn Leó Jóhannsson, 9
  Birgir Berndsen, 9
  Kristján Örn Elíasson, 9
9-10 Eiríkur Björnsson, 8.5
  Páll Andrason, 8.5
11-13 Elsa María Kristínardóttir, 8
  Helgi Brynjarsson, 8
  Jón Trausti Harðarson, 8
14-16 Gunnar Björnsson, 7.5
  Birkir Karl Sigurðsson, 7.5
  Hörður Aron Hauksson, 7.5
17-20 Guðmundur Kr. Lee, 7
  Jón Úlfljótsson, 7
  Kjartan Maack, 7
  Nansý Davíðsdóttir, 7
21 Gauti Páll Jónsson, 6.5
22-27 Sigurlaug Friðþjófsdóttir, 6
  Óliver Aron Jóhannesson, 6
  Vignir Vatnar Stefánsson, 6
  Daday Csaba, 6
  Björgvin Kristbergsson, 6
  Mikael Krawchuk, 6
28-29 Dagur Kjartansson, 5.5
  Magnús Matthíasson, 5.5
30-31 Dagur Ragnarsson, 5
  Jakob Alexander Petersen, 5
32-35 Kristófer Jóel Jóhannesson, 4
  Óskar Long Einarsson, 4
  Verónika Steinunn Magnúsdóttir, 4
  Donika Kolica, 4
36 Pétur Jóhannesson, 1