Hjörvar hefur tryggt sér sigur í Haustmótinu



Ekkert lát er á sigurgöngu Hjörvars Steins Grétarssonar (2320) í Haustmótinu því í sjöundu umferð, sem fram fór í gærkvöldi, vann hann Daða Ómarsson (2099).  Daði stóð þó lengi vel í Hjörvari en fékk erfiða stöðu þegar í endataflið var komið og tefldi svo lokin illa þannig að sigur Hjörvars var staðreynd.  Með sigrinum tryggði Hjörvar sér sigur í mótinu því þegar tveim umferðum er ólokið hefur hann 2,5 vinnings forskot á næstu menn.

Jöfn í 2.-4. sæti með 4,5 vinning eru Ingvar Þór Jóhannesson (2323), sem gerði afar stutt jafntefli við Sigurð Daða Sigfússon (2335), Lenka Ptacnikova (2285), sem vann Júlíus L. Friðjónsson (2216), og Sigurbjörn Björnsson (2287), sem sigraði Kristján Eðvarðsson (2255) í spennandi og opinni skák.

Í b-flokki urðu óvænt úrslit þegar Sigurður H. Jónsson (1889) sigraði Helga Brynjarsson (1969) með svörtu og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (1788) heldur áfram góðu gengi með sigri á Páli Sigurðssyni (1879).  Frímann Benediktsson er efstur með 5 vinninga, en hann hefur ekki tapað skák í mótinu.  Jöfn í 2.-3. sæti með 4,5 vinning eru Sigurlaug og Patrekur Maron Magnússon (1954).

Í c-flokki stendur baráttan á milli Friðriks Þjálfa Stefánssonar (1694) og Atla Antonssonar (1720) en sá fyrrnefndi hefur 6 vinninga en Atli 5,5 vinning.  Þrír skákmenn koma næstir með 4 vinninga.

Örn Leó Jóhannsson (1728) leiðir enn í d-flokki með fullu húsi en Jóhann Karl Hallsson er sem fyrr annar með 5 vinninga.

Áttunda umferð fer fram á morgun, sunnudag, og hefst kl. 14.

Á heimasíðu mótsins má nálgast öll úrslit.

Skákir 8. umferðar í beinni útsendingu. (Tengilli virkjast skömmu fyrir umferð)