Haustmótið: Daði efstur eftir tvær umferðirDaði Ómarsson (2172) heldur áfram góðu gengi sínu frá því fyrr á árinu og trónir nú einn á toppnum í Hausmótinu með fullt hús þegar tvær umferðir hafa verið tefldar.  Í annari umferð sigraði hann Sverri Örn Björnsson (2161).  Af öðrum úrslitum má nefna að Gylfi Þórhallsson (2200) og stórmeistarinn, Þröstur Þórhallsson (2381), gerðu jafntefli, en stórmeistarinn hefur farið rólega af stað í mótinu.  Óvæntustu úrslit umferðarinnar voru þó án efa sigur hins unga, Sverris Þorgeirssonar (2223), á Guðmundi Gíslasyni (2346).

Sem fyrr segir leiðir Daði með 2 vinninga en jafnir í 2.-3. sæti eru Sigurbjörn Björnsson (2300) og fyrrnefndur Sverrir Þ.

Í b-flokki lagði Stefán Bergsson (2102) alþjóðlega meistarann, Sævar Bjarnason (2148), í verulega fjörugri skák og þá vann hinn ungi, Örn Leó Jóhannsson (1820), skallapopparann, Kristján Örn Elíasson (1980).  Stefán leiðir með fullu húsi en þrír skákmenn koma næstir með 1,5 vinning.

C-flokkur heldur áfram að vera jafn og spennandi en 3 af 5 skákum annarar umferðar lauk með jafntefli og hefur nú sjö af fyrstu tíu viðureignunum lokið með skiptum hlut.  Athygli vakti snarpur sigur Páls Sigurðssonar (1884) á syni sínum, Svanbergi Má Pálssyni (1781), en erfinginn steinlá í innan við 20 leikjum.  Verið er að vinna í því að koma aftur á eðlilegu sambandi milli feðganna.  Þrír skákmenn leiða flokkinn með 1,5 vinning en fjórir koma næstir með 1 vinning.

Í d-flokki lauk einnig þremur skákum með jafntefli en í annarri af hinum tveimur sigraði Páll Andrason (1604) félaga sinn, Eirík Örn Brynjarsson (1650), en sá fyrrnefndi hefur lýst því yfir að hann ætli sér að reyna að “hreinsa” upp flokkinn.  Páll er efstur með fullt hús ásamt Snorra Sigurði Karlssyni (1585).

Í d-flokki eru fjórir keppendur efstir með fullt hús.

Þriðja umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Allar upplýsingar má finna á heimasíðu Haustmótsins.