Haustmótið 6. umferð: Sverrir leiðir ennEfstu menn Haustmótsins, Sverrir Þorgeirsson (2223) og Daði Ómarsson (2172), mættust í sjöttu umferð sem fór fram í gærkvöldi.  Nokkuð hallaði á Daða mestalla skákina og í lokin virtist sem Sverrir væri að innbyrða sigur peði yfir í endatafli en Daði varðist vel og að lokum lauk skákinni með jafntefli.  Sverrir heldur því hálfs vinnings forskoti á Daða sem hefur 4,5 vinning.  Athygli vekur að hvor um sig hafa þeir hækkað um rúmlega 30 elo-stig sem stendur.

Þriðji með 4 vinninga er Fide meistarinn, Sigurbjörn Björnsson (2300), sem vann stórmeistarann, Þröst Þórhallsson (2381), þar sem sá síðarnefndi hafði mun betri stöðu í miðtaflinu og ágæt sóknarfæri.  Vopnin snérust þó í höndunum á Þresti sem valdi ekki rétta leið og fékk fljótlega koltapaða stöðu.

Í sjöundu umferð mætast annarsvegar Sverrir og Sverrir Örn Björnsson (2161) og hinsvegar alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2373) og Daði en Guðmundur hefur verið að sækja í sig veðrið.  Þá verður fróðlegt að fylgjast með hvort Jón Árni Halldórsson (2194) haldi áfram að verja jafntefliskóngstitil sinn en hann hefur nú gert jafntefli í fimm af sex skákum.

Í b-flokki heldur Stefán Bergsson (2102) forystunni með 5 vinninga eftir þægilegan sigur á Magnúsi Magnússyni (2046) en annar með 4,5 vinning er Ögmundur Kristinsson (2050) sem vann Þór Valtýsson (2078).  Alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2148), er þriðji með 3,5 vinning, en hann tapaði óvænt fyrir Kristjáni Erni Elíassyni (1980) eftir að hafa verið með hartnær unnið tafl um tíma.  Athyglisvert er að líkt og í a-flokki er það ungur skákmaður sem ber höfuð og herðar yfir aðra hvað varðar stigahækkun en Örn Leó Jóhannsson (1960) hefur hækkað um 23 elo-stig sem stendur.

Öðlingurinn, Páll Sigurðsson (1884), heldur uppteknum hætti í c-flokki og leggur hvern andstæðinginn á fætur öðrum.  Í sjöttu umferð var fórnarlambið suðurnesjabúinn, Patrick Svansson (1809), en sá síðarnefndi gerðist full kærulaus með kóngsstöðuna sína og lék síðan illa af sér.  Nágranni Páls, Haukamaðurinn, Ingi Tandri Traustason (1808) er að eiga mjög gott mót og vann Siguringa Sigurjónsson (1944).  Ingi Tandri er því í öðru sæti með 4,5 vinning.  Hann var þó stálheppinn á móti Siguringa því sá síðarnefndi var manni yfir í endatafli og unna stöðu þegar hann lék af sér heilum hrók.  Þriðji er svo hinn norskættaði TR-ingur, Jon Olav Fivelstad (1875), með 3,5 vinning sem er athyglisvert í ljósi þess að hann missti af einni umferð.

Af öllum flokkum mótsins er d-flokkur sá mest spennandi.  Stigahæsti maður flokksins, Páll Andrason (1665), er efstur með 5 vinninga eftir sigur á félaga sínum, Birki Karli Sigurðssyni (1480), í baráttuskák þar sem Birkir lék sig klaufalega í óverjandi mát.  Birkir er í 2.-5. sæti með 4 vinninga ásamt Snorra S. Karlssyni (1585), Guðmundi K. Lee (1595) og Eiríki Erni Brynjarssyni (1650).

Úrslit virðast ráðin í opna e-flokknum því Grímur Björn Kristinsson heldur enn forystunni með fullu húsi en hann sigraði Jóhannes K. Sólmundarson.  Önnur er hin unga, Veronika Steinunn Magnúsdóttir með 5 vinninga, en þar sem hún og Grímur eru búin að mætast verður að teljast ólíklegt að hann missi niður forystuna.  Þriðja með 4,5 vinning er svo önnur ung og efnileg stúlka, Sóley Lind Pálsdóttir (1060).

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu mótsins.