Haustmót Taflfélags Reykjavíkur, hið 84. í röðinni, hófst síðastliðið miðvikudagskvöld. Keppendur að þessu sinni eru 30 talsins og er þetta fámennasta Haustmótið um árabil, en margir íslenskir skákmenn eru uppteknir á öðrum vígstöðvum á þessum annasömu haustmánuðum.
Þó mótið sé fámennt þá er það sannarlega góðmennt enda skipað fjölmörgum skemmtilegum skákmönnum. Þrír titilhafar eru á meðal keppenda; stórmeistarinn og skákþjálfarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2567), alþjóðlegi meistarinn og byrjanaprófessorinn Einar Hjalti Jensson (2362) og FIDE meistarinn geðþekki úr Grafarvoginum Oliver Aron Jóhannesson (2272). Fjórði í stigaröðinni er Bolvíkingurinn sókndjarfi, Magnús Pálmi Örnólfsson (2227) sem hefur smíðað margar laglegar fléttur í Faxafeninu í gegnum árin. Fimmti stigahæsti keppandinn er fyrrum skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur, hinn eitilharði Þorvarður Fannar Ólafsson (2164) sem nýverið söðlaði um og gekk til liðs við Vinaskákfélagið. Næstur honum í stigaröðinni er gamla brýnið og einn virkasti skákmaður landsins síðustu ár, Björgvin Víglundsson (2137). Sjöundi í stigaröðinni og sá síðasti sem er yfir 2000 skákstigum er Garðbæingurinn snjalli, Jóhann H. Ragnarsson (2032).
Úrslit fyrstu umferðar voru öll eftir gömlu góðu bókinni, þ.e. þeir stigahærri unnu þá stigalægri, enda stigamunur mikill. Í næstu umferð minnkar stigabilið verulega og má því búast við nokkrum spennandi skákum á föstudagskvöld þegar 2.umferð verður tefld. Þá mætast meðal annars á efstu borðum Hjörvar Steinn og Kristján Örn Elíasson (1869), og Einar Hjalti mætir Herði Aroni Haukssyni (1859).
Fjölmargir ungir og efnilegir liðsmenn TR munu vafalítið láta finna fyrir sér í umferðinni enda duglegir að stunda æfingar og tefla í mótum. Árni Ólafsson (1217) stýrir hvítu mönnunum gegn Hjálmari Sigurvaldasyni (1498), Adam Omarsson (1149) sem nýverið gekk til liðs við Taflfélag Reykjavíkur hefur hvítt gegn Tryggva K. Þrastarsyni (1325), Benedikt Þórisson (1065) hefur svart gegn Kristófer H. Kjartanssyni (1297) og Kristján Dagur Jónsson (1271) stýrir hvíta herliðinu gegn Kjartani Karli Gunnarssyni (0).
Umferðin á föstudagskvöldið hefst klukkan 19:30 í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12. Gestir eru hjartanlega velkomnir að líta við í kaffi og fylgjast með baráttunni í skáksalnum.
Úrslit og staða: Chess-results
Skákirnar (pgn): HTR #1