Jólaskákmót grunnskóla Reykjavíkurborgar var haldið sunnudaginn 25.nóvember í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Sem fyrr var mótið samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur. Alls tefldu 28 skáksveitir í mótinu frá 13 skólum og var mótið þrískipt líkt og árið á undan; 1-3.bekkur, 4-7.bekkur og 8-10.bekkur.
1.-3.bekkur
Ung börn og forráðamenn þeirra streymdu í skáksalinn fyrir sólarupprás síðastliðinn sunnudag. Börnin sem öll voru í 1.-3.bekk mynduðu 8 skáksveitir frá sex grunnskólum höfuðborgarinnar, þar af var ein stúlknasveit. Fljótlega varð ljóst að sveit Háteigsskóla, sem hafði titil að verja, bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína. Háteigsskóli fékk 23 vinninga af 24 mögulegum og varði því titilinn. Stúlknasveit Rimaskóla veitti sigurliðinu mestu keppnina og hafnaði í 2.sæti með 19 vinninga. Mikil barátta var um þriðja sætið og þegar upp var staðið sat þar sveit Landakotsskóla með 14 vinninga.
Háteigsskóli hefur heldur betur stimplað sig inn í skólaskákina undanfarin misseri, en þar heldur um skáktaumana landsliðskonan Lenka Ptacnikova. Rimaskóli fær jafnframt sérstakt hrós fyrir að senda stúlknasveit til leiks og eru aðrir skólar hvattir til þess að fylgja fordæmi þeirra að ári.
4.-7.bekkur
Í humátt á eftir yngsta hópnum komu börnin í 4.-7.bekk. Alls mættu 13 skáksveitir til leiks, þar af var ein stúlknasveit. Í þessum keppnisflokki hafði Rimaskóli titil að verja. Svo fór að Rimaskóli varð að láta titilinn af hendi en liðsmenn skólans fóru þó ekki tómhentir heim. Stúlknasveit Rimaskóla lauk tafli í 4.sæti og A-sveit skólans hreppti 3.sætið eftir spennandi baráttu um silfurverðlaunin. Sveit Landakotsskóla náði einum vinningi meira en Rimaskóli og tryggði sér því silfurverðlaunin með 17 vinninga. Sigurvegarari, líkt og fyrr um morguninn, var sveit Háteigsskóla með 20 vinninga af 24 mögulegum. Það vakti athygli margra að þessi sveit Háteigsskóla var skipuð fjórum stúlkum og einum strák sem var varamaður. Stúlkurnar fjórar sem allar hafa stundað skákæfingar hjá Taflfélagi Reykjavíkur undanfarin misseri sýndu og sönnuðu að í Reykjavík standa stúlkur í það minnsta jafnfætis piltum í skáklistinni.
8.-10.bekkur
Skákmeistarar á efsta stigi grunnskóla luku þessum mikla skák-sunnudegi með glæsibrag. Sjö skáksveitir frá sjö grunnskólum öttu kappi og tefldu þær allar innbyrðis. Ölduselsskóli sem átti titil að verja gat ekki stillt upp sínu sterkasta liði en var þó lengi vel í baráttunni um bronsið. Sveitin varð þó að lokum að sætta sig við 4.sætið með 10 vinninga. Foldaskóli fékk 11 vinninga og tryggði sér bronsverðlaun. Rimaskóli hlaut silfurverðlaun með 13 vinninga. Sigurvegari mótsins að þessu sinni var sveit Laugalækjarskóla sem vann með miklum yfirburðum. Laugalækjarskóli fékk 22 vinninga í 24 skákum.
Jólamót grunnskóla Reykjavíkurborgar heppnaðist afar vel þetta árið og mæltist fyrirkomulag mótsins vel fyrir. Liðsstjórar liðanna stóðu vaktina með miklum sóma og var ánægjulegt hve vel þeim gekk að sinna sínu hlutverki, bæði gagnvart sínum liðum og gagnvart mótsstjórn. Úrslit voru nær undantekningarlaust tilkynnt mjög fljótt að loknum viðureignum og börnin fundu sætin sín hratt og örugglega eftir að pörun umferða var birt. Þetta gerði það að verkum að framkvæmd mótsins hélt tímaáætlun í öllum flokkum.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar eru færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. Grunnskólar borgarinnar fá jafnframt þakkir fyrir þátttökuna. Við hjá Taflfélagi Reykjavíkur viljum þakka börnunum sérstaklega fyrir einstaklega notalegt andrúmsloft sem þau sköpuðu með nærveru sinni. Þessi skemmtilega blanda af gleði og keppnisskapi á sér enga líka og á stærstan þátt í að gera Jólaskákmót SFS og TR að einu skemmtilegasta skákmóti ársins. Sjáumst að ári!
Upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu allra flokka má nálgast á Chess-Results. Myndir frá Jólamótinu má einnig finna á vef félagsins.