Jólaskákmót grunnskóla Reykjavíkurborgar var haldið sunnudaginn 3.desember í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Sem fyrr var mótið samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur. Alls tefldu 39 skáksveitir í mótinu sem var þrískipt að þessu sinni; 1-3.bekkur, 4-7.bekkur og 8-10.bekkur. Í öllum keppnisflokkum voru tefldar 6 umferðir með umhugsunartímanum 5 mínútur fyrir hvern keppanda auk þess sem 3 sekúndur bættust við eftir hvern leik (5+3).
1.-3.bekkur
Klukkan hafði varla slegið níu að morgni þegar í skáksalinn streymdu ung börn og forráðamenn þeirra. Börnin sem öll voru í 1.-3.bekk mynduðu 10 skáksveitir frá sex grunnskólum höfuðborgarinnar, þar af voru tvær stúlknasveitir. Fljótlega varð ljóst að tvær skáksveitir skáru sig úr hópnum hvað styrkleika varðar, sveitir Háteigsskóla og Langholtsskóla. Næstu sex skáksveitir voru nokkuð jafnar að styrkleika og reyttu vinninga hver af annarri.
Að loknum umferðunum sex stóð sveit Háteigsskóla uppi sem sigurvegari með 20 vinninga af 24 mögulegum. Langholtsskóli varð í 2.sæti með 19 vinninga, aðeins einum vinningi á eftir sigurvegurunum. Rimaskóli tryggði sér bronsverðlaun með 13,5 vinning. Stúlknasveit Rimaskóla fékk einnig 13,5 vinning og varð því fremst stúlknasveita. Rimaskóli og Langholtsskóli fá sérstakt hrós fyrir að senda stúlknasveitir til leiks og eru aðrir skólar hvattir til þess að fylgja fordæmi þeirra að ári.
4.-7.bekkur
Í humátt á eftir yngsta hópnum komu börnin í 4.-7.bekk. Alls mættu 22 skáksveitir til leiks, þar af voru þrjár stúlknasveitir. Í þessum keppnisflokki hafði Rimaskóli töluverða yfirburði. A-sveit skólans vann mótið næsta örugglega með 20 vinninga af 24 mögulegum. Stúlknasveit Rimaskóla lenti í 2.sæti með 16 vinninga, en sveitin sú er ein sterkasta stúlknasveit sem keppt hefur í mótinu um langt skeið. Einkar eftirtektarverð framganga hjá Grafarvogsstúlkum.
B-sveit Rimaskóla hreppti bronsverðlaun með 15,5 vinning eftir 2-2 jafntefli gegn A-sveit sama skóla í lokaumferðinni þar sem jafntefli var samið á öllum borðum eftir örstutta taflmennsku. Það nægði B-sveitinni til hálfs vinnings forskots á Háteigsskóla sem varð að gera sér 4.sætið að góðu með 15 vinninga.
8.-10.bekkur
Skákmeistarar á efsta stigi grunnskóla luku þessum mikla skák-sunnudegi með glæsibrag. Sex skáksveitir frá fimm grunnskólum öttu kappi og tefldu þær allar innbyrðis. Ölduselsskóli sýndi mátt sinn í þessum elsta aldursflokki með öflugri taflmennsku auk þess sem skólinn átti tvær skáksveitir af sex. A-sveit skólans vann mótið örugglega með 19 vinninga af 20 mögulegum, aðeins Laugalækjarskóli náði að vinna skák gegn þeim. Laugalækjarskóli varð í 2.sæti með 13,5 vinning og í 3.sæti varð B-sveit Ölduselsskóla með 9 vinninga.
Það vakti athygli að Ölduselsskóli skyldi tefla fram tveimur liðum í elsta flokki því brottfall elstu nemenda grunnskóla er mikið líkt og sést glögglega þegar fjöldi skáksveita keppnisflokkanna þriggja er skoðaður. Með þessum tveimur sterku skáksveitum hefur Ölduselsskóli tekið sér stöðu sem virkasti skák-skólinn í Reykjavík á efsta stigi grunnskóla.
Lokaorð
Jólamót grunnskóla Reykjavíkurborgar heppnaðist afar vel þetta árið og mæltist breytt fyrirkomulag mótsins vel fyrir. Liðsstjórar liðanna stóðu vaktina með miklum sóma og var afar ánægjulegt hve vel þeim gekk að sinna sínu hlutverki, bæði gagnvart sínum liðum og gagnvart mótsstjórn. Úrslit voru nær undantekningarlaust tilkynnt mjög fljótt að loknum viðureignum og börnin fundu sætin sín hratt og örugglega eftir að pörun umferða var birt. Þetta gerði það að verkum að framkvæmd mótsins hélt tímaáætlun að mestu leyti, þrátt fyrir mikinn fjölda barna og fullorðinna í skáksalnum.
Háteigsskóli, Rimaskóli og Ölduselsskóli voru öðrum skólum fremri að þessu sinni og unnu hver sinn flokk. Einnig er vert að minnast á að tveir skólar mættu til leiks í liðsbúningum -Landakotsskóli og Ölduselsskóli- og setti það skemmtilegan svip á mótið. Eru skólar hvattir til þess að leika það eftir á næsta skólamóti.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar eru færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. Grunnskólar borgarinnar fá jafnframt þakkir fyrir þátttökuna. Við hjá Taflfélagi Reykjavíkur viljum þakka börnunum sérstaklega fyrir einstaklega notalegt andrúmsloft sem þau sköpuðu með nærveru sinni. Þessi skemmtilega blanda af gleði og keppnisskapi á sér enga líka og á stærstan þátt í að gera Jólaskákmót SFS og TR að einu skemmtilegasta skákmóti ársins. Sjáumst að ári!
Upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu má nálgast á Chess-Results.