Haraldur Haraldsson trónir á toppnum fyrir lokaumferð ÖðlingamótsinsNorðanmaðurinn knái, Haraldur Haraldsson, sem snúinn er suður til Reykjavíkur er einn efstur fyrir síðustu umferð Öðlingamóts TR með fimm vinninga af sex mögulegum. Hann vann nafna sinn Baldursson í uppgjöri efstu manna í sjöttu umerð sem tefld var miðvikudaginn 20. mars síðastliðinn. Þorvarður Ólafsson, sem einnig var með fjóra vinninga, gerði jafntefli við Lenku Ptacnikovu og á þriðja borði vann svo Jóhann Ingvason Snorra Þór Sigurðsson. Þeir Þorvarður og Jóhann eru því í öðru og þriðja sæti fyrir lokaátökin. Þótt Haraldur sé efstur fyrir lokaumferðina, má hann helst ekki misstíga sig í lokaumferðinni.

Næsta miðvikudagskvöld, þann 27. mars, fær Haraldur svart gegn Jóhanni Ingvasyni. Þorvarður fær svo að spreyta sig á 2.borði gegn hinum margreynda Jóhanni Ragnarssyni. Á fjórða borða mætast Lenka og Haraldur Baldursson sem hafa fjóra vinninga og geta því blandað sér í toppbaráttuna. Erfitt er að spá um hvernig fer því allt eru þetta reynsluboltar á skáksviðinu. Vinni Haraldur Haraldsson í lokaumferðinni er ljóst að hann mun standa uppi sem sem Öðlingameistari 2019 en Jóhann gæti þó reynst ljár í þúfu hans.

Skákáhugamenn eru hvattir til að koma í heimsókn í Faxafenið og berja skákmennina augum næstkomandi miðvikudagskvöld. Hver veit nema snilldin verði slík að skákdálkar fréttablaðanna fyllist af kræsilegum krossleppunum og furðulegum fráskákum eftir átök öðlinganna.

Chess-Results