Guðmundur óstöðvandi – orðinn alþjóðlegur meistari



Guðmundur Kjartansson (2356) rauf í dag 2400 stiga múrinn þegar hann sigraði rússneska alþjóðlega meistarann, Egor Krivoborodov (2442), í þriðju umferð Czech Open 2009.  Hann hefur þarmeð uppfyllt síðasta skilyrðið til að vera formlega útnefndur alþjóðlegur meistari.

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Guðmundi innilega til hamingju með titilinn.

Í skák Guðmundar í dag, þar sem hann stýrði hvítu mönnunum, var tefldur enskur leikur og var skákin jafnteflisleg fram í miðbik hennar þegar staðan fór að opnast og ljóst að hvorugur ætlaði að tefla upp á jafntefli.  Þegar á leið batnaði staða Guðmundar jafnt og þétt og var hann kominn með gjörunnið tafl þegar hann missti af vinningsleið og fór þess í stað í drottningarkaup sem gáfu Rússanum alla möguleika á jafntefli.  Guðmundur hélt þó áfram að tefla af fullum krafti og eftir mistök Rússans innbyrti hann sanngjarnan sigur.

Guðmundur er með fullt hús eftir þrjár umferðir og deilir efsta sætinu með sjö öðrum skákmönnum.  Í fjórðu umferð, sem fer fram á morgun kl. 13, stýrir hann svörtu mönnunum gegn tékkneska alþjóðlega meistaranum, Stepan Zilka (2466), og verður skákin í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Guðmundur teflir í opnum a-flokki þar sem 295 skákmenn taka þátt en hann er númer 109 í röðinni.  Stigahæstur er Azerbaijinn, Rauf Mamedov (2645).

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni

Chess-Results

Skákir til niðurhals