Guðmundur nálgast stórmeistaratitilinn



TR-ingurinn og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson gerði harða atlögu að sínum þriðja og síðasta áfanga að stórmeistaratitli á Hastings mótinu sem fór fram á dögunum. Guðmundur hlaut 7 vinninga í níu umferðum og hafnaði í 2.-4. sæti en hann tapaði aðeins einni skák og vann sex. Árangur Guðmundar samsvarar 2578 Elo-stigum og hækkar hann um 17 Elo-stig og er því kominn með hátt í 2470 stig.

 Það er raunar með óllíkindum hversu nálægt Guðmundur var því að ná lokaáfanganum því meðalstig andstæðinga hans hefðu einungis þurft að vera 0,06 Elo-stigum hærri en þennan meðbyr mun hann taka með sér í næsta mót og það er ljóst að ekki er langt í stórmeistarartitilinn. Til að tryggja sér hann þarf Guðmundur að ná 2500 Elo-stigum auk þriðja og síðasta áfangans. Guðmundur er sem stendur tíundi stigahæsti skákmaður þjóðarinnar og er núverandi Íslandsmeistari í skák. 

Sigurvegari mótsins með 8 vinninga var kínverski stórmeistarinn Jun Zhao en Guðmundur tryggði sér um 160.000 kr í verðlaunafé.

  • Heildarúrslit
  • Mótsvefur