Guðmundur náði stórmeistaraáfanga!



Fide meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2356), sló algjörlega í gegn á Skoska meistaramótinu sem lauk í dag.  Í níundu og síðustu umferðinni gerði hann jafntefli við enska stórmeistarann, Mark Hebden (2468), en það nægði honum til að landa sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli.  Skákin var mjög tvísýn og sveiflaðist um tíma fram og til baka í mjög flókinni stöðu.  Að lokum þráskákaði Guðmundur Englendinginn og jafntefli varð niðurstaðan eins og fyrr segir.

Guðmundur lauk keppni í 4.-8. sæti með 6,5 vinning og hækkar hann um 42 stig en árangur hans samsvarar 2586 stigum sem er einkar glæsilegt, enda er það rúmlega 200 stigum meira en skákstig hans í dag.  Guðmundur tapaði aðeins einni skák í mótinu, gerði þrjú jafntefli við stórmeistara og vann fimm skákir, þar af þrjá stórmeistara.

Aron Ingi Óskarsson (1876) sigraði Skotann, Andrew McHarg (1586), og hafnaði í 63.-77. sæti með 3,5 vinning.  Aron átti ekki gott mót að þessu sinni en árangur hans samsvarar 1538 skákstigum og tapar hann um 40 stigum.

Sigurvegari mótsins með 7,5 vinning var indverski stórmeistarinn, S. Arun Prasad (2556), en Guðmundur var sá eini sem náði að sigra hann.  Jafnir í 2.-3. sæti voru slóvakíski stórmeistarinn, Jan Markos (2555), og enski stórmeistarinn, Mark Hebden (2468).

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Guðmundi til hamingju með þennan glæsilega árangur og fyrsta stórmeistaraáfangann.

Heimasíða mótsins