Gauti Páll þriðji í Skákþingi Garðabæjar



Hinn fjórtán ára efnilegi TR-ingur, Gauti Páll Jónsson, gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 3. sæti í Skákþingi Garðabæjar sem lauk á dögunum.  Gauti, sem hefur 1589 Elo stig (1565 við upphaf mótsins), var 14. í stigaröðinni af 29 keppendum og hlaut 5 vinninga af 7 mögulegum.  Þetta er sannarlega góður árangur hjá Gauta sem tapaði aðeins einni skák í mótinu og vann meðal annars Siguringa Sigurjónsson í lokaumferðinni en á þeim munar ríflega 400 Elo stigum.

 

Árangur Gauta samsvarar 1737 stigum og fyrir hann hækkar hann um 27 stig sem kemur honum yfir 1600 stiga múrinn.  Það er gaman að geta þess að Gauti Páll hefur hækkað um u.þ.b. 100 Elo stig á síðastliðnu ári.

 

Gauti Páll var ekki eini TR-ingurinn sem tók þátt í mótinu því þar var einnig Björn Hólm Birkisson sem stóð sig afar vel og hækkaði næstmest allra á stigum, hvorki meira né minna en 37 stig.  Björn hlaut 3 vinninga og nú þarf hann aðeins örfá stig í viðbót til að ná 1600 stigum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir hlaut 3,5 vinning og Bárður Örn Birkisson hlaut 2,5 vinning.

 

Í B-flokki stóðu TR krakkarnir sig einnig vel því Þorsteinn Magnússon og Mykhaylo Kravchuk höfnuðu í 2.-3. sæti með 5 vinninga.  Báðir hækka þeir á stigum fyrir árangurinn.

 

Taflfélag Reykjavíkur óskar þessum flottu krökkum til hamingju með góðan árangur og er stolt af því að eiga svo flotta fulltrúa.

  • Chess-Results