
Aljóðlegi meistarinn og nýkrýndur Íslandsmeistari Guðmundur Kjartansson (2437) er á meðal þátttakenda í sterku og fjölmennu Evrópumóti einstaklinga sem fram fer í Minsk, Hvíta-Rússlandi, dagana 30. maí – 10. júní. Alls eru keppendur tæplega 400 talsins og er Guðmundur númer 220 í stigaröðinni. Hvorki fleiri né færri en 171 stórmeistari tekur þátt í mótinu, þar af níu sem hafa meira en 2700 Elo-stig og á áttunda tug hefur meira en 2600 Elo-stig. Stigahæstur keppenda er tékklenski stórmeistarinn David Navara (2739). Aðeins 10% keppenda hefur minna en 2000 Elo-stig.
Tefldar verða 11 umferðir sem allar hefjast kl. 12.30 að íslenskum tíma að undanskilinni lokaumferðinni sem hefst kl. 8 að morgni. Ein umferð fer fram á dag en frídagur er 4. júní. Efstu 22 sætin í mótinu gefa þátttökurétt á Heimsbikarmótinu síðar á árinu þar sem efstu tvö sætin veita þátttökurétt í átta manna áskorendamóti hvar keppt er um réttinn til að skora á núverandi heimsmeistara, Magnus Carlsen, í næstkomandi heimsmeistaraeinvígi sem fer fram í nóvember 2018.
Í fyrstu umferð fékk Guðmundur ærið verkefni er hann stýrði hvítu mönnunum gegn úkraínska stórmeistaranum Alexander Moiseenko (2677) og varð hann að lokum að játa sig sigraðan. Önnur umferð fer fram á morgun miðvikudag og hefst kl. 12.30 að íslenskum tíma. Þá stýrir Gummi svörtu mönnunum gegn heimamanninum Valiantsin Yezhel (2156).
 Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins
				