Venju samkvæmt verður Grand Prix mótaröð Fjölnis og TR haldið áfram í kvöld í Skákhöllinni í Faxafeni. Mótið hefst kl. 19:30 og verða tefldar sjö umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma. Góð tónlistarverðlaun verða í boði að venju og Grand Prix kanna verður að auki veitt sigurvegaranum.
Alþjóðlegi meistarinn Arnar E. Gunnarsson hefur örugga forystu í mótaröðinni, hefur sigrað í öll skiptin sem hann hefur verið með.
Þar sem láðist að senda á Skák.is röð efstu manna á síðustu tveim mótum verður hér með snarlega bætt úr því. Fimmtudaginn 17. apríl bar Dagur Andri Friðgeirsson sigur úr býtum með 7½ vinning eftir spennandi baráttu við Daða Ómarsson sem lenti í öðru sæti með jafnmarga vinninga. Í þriðja sæti með 5 vinninga varð Sigurjón Haraldsson og státaði þar með sínum besta Grand Prix árangri til þessa.
Fimmtudaginn 24. febrúar var svo hinn geysisterki Arnar E. Gunnarsson mættur til leiks að nýju og fór með öruggan sigur af hólmi þrátt fyrir að ná ekki að tefla síðustu umferð vegna fótboltaæfingar! Arnar hlaut 7½ vinning.
Vilhjálmur Pálmason varð annar með 7 vinninga og Vigfús Vigfússon þriðji með 6½ vinning. Vigfús hefur unnið til verðlauna einnig fyrir ástundun Grand Prix mótanna en enginn skákmaður hefur mætt eins oft.Til hamingju Vigfús!
En ég minni aftur á Grand Prix mótið í kvöld.
Óttar Felix Hauksson