Það var fínasta mæting á þriðjudagsmótið þann 16. mars, en 23 skákmenn mættu til leiks, og enn og aftur nokkuð um nýliða. Varaformaðurinn sjálfur kláraði mótið með fullu húsi en gnægð skákjöfra hlutu þrjá vinninga upp úr krafsinu! Það voru: Matthías Björgvin Kjartansson sem stóð sig frábærlega og hækkaði um rúm 50 atskákstig eftir aðeins fjögurra umferða mót, Helgi Hauksson, Torfi Leósson, Sigurður Freyr Jónatansson, Jon Olav Fivelstad og Óskar Long Einarsson. Þriðjudagsmótin halda að óbreyttu áfram eitthvað fram á sumar, en einnig má nýta tækifærið og auglýsa æfingarkappskákina sem byrjar fimmtudaginn 8. apríl næstkomandi.
Öll úrslit og lokaniðurstöðu mótsins má nálgast á chess-results.
Næsta þriðjudagsmót verður þann 23. mars. Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.