Gauti Páll með fullt hús á Þriðjudagsmóti



Gauti Páll Jónsson vann allar sínar skákir fimm að tölu á Þriðjudagsmótinu þann 25. janúar en það mátti þó ekki tæpara standa, þrír af fimm vinningum komu í hús í strembnum endatöflum. Karpov talaði um að það fyrsta sem aður ætti að stúdera í skák væru peðsendatöfl. Það er ályktun mótshaldara að það sé alveg hárrétt. Næstur í röðinni með fjóra vinninga varð Kristófer Orri Guðmundsson sem tók nú þátt í sínu öðru skákmóti í raunheimum. Hlaut hann árangursverðlaunin fyrir sína framistöðu. Það er ánægjulegt að Þriðjudagsmótin séu vettvangur fyrir skákmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref á alvöru skákmótum, en ætli það séu ekki um 10-20 manns sem hafa dottið inn á stigalista eftir þáttöku á þeim í gegnum tíðina.

Úrslit og stöðu mótsins má nálgast á chess-results.

Næsta mót verður þriðjudagskvöldið 1. febrúar klukkan 19:30.