25 manns mættu á Þriðjudagsmótið þann 8. mars. Eftir fimm umferðir var það mótshaldarinn sjálfur einn efstur með fullt hús eins og hendir stundum. Tveir skákmenn fengu fjóra vinninga af fimm, Daði Ómarsson og Grímur Daníelsson. Ótrúlegt en satt þá tefldi Gauti Páll við hvorugan þeirra! Gauti Páll lenti hins vegar í því tvisvar sinnum að stýra hvítu mönnunum gegn kóngsindverskri vörn þar sem andstæðingarnir tóku til baka með biskup á f5 en ekki peði. Alltaf að taka með peði! sagði einhver voða frægur einhverntíman, og það hefði reynst betur í þessum tveimur skákum.
Efstur miðað við eigin stig varð Páll Ísak Ægisson en hann er stigalaus og hlaut þrjá vinninga, og árangur upp á 1453 stig. Eitthvað kannaðist mótshaldarinn við nafnið, og jú, hér var að sjálfsögðu gamall skákfélagi frá laugardagsæfingum fyrir rúmum áratug. Á myndinni má einmitt sjá verðlaunahafa þriðjudagsmótsins á jólaskákæfingu TR 2009.
Mótið á chess-results.