Gagnaveitumótið: Óbreytt staða á toppnum



Þriðja umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur fór fram síðastliðinn sunnudag.  Fyrir umferðina voru stórmeistarinn Stefán Kristjánsson, alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson með fullt hús vinninga og deildu efsta sætinu.  Staða þeirra breyttist ekki þar sem þeir unnu allir sínar viðureignir í þriðju umferðinni.

Stefán lagði eina TR-ing A-flokksins, Kjartan Maack, og mátti prísa sig sælan eftir afleik í endatafli með kóng og þrjú peð gegn kóngi og tveimur peðum Kjartans sem leitt hefði til jafnteflis ef Kjartan hefði ekki komið með afleik á móti sem leiddi til taps.  Einar Hjalti sigraði Jóhann H. Ragnarsson og Jón Viktor hafði betur gegn Sverri Erni Björnssyni.

Viðureignum Dags Ragnarssonar og Gylfa Þórs Þórhallssonar sem og Stefáns Bergssonar og Olivers Arons Jóhannessonar lauk með jafntefli.  Sem fyrr segir leiða því Stefán, Jón Viktor og Einar Hjalti með fullu húsi vinninga en Dagur og Stefán B koma næstir með 1,5 vinning.  Enn mætast efstu menn ekki innbyrðis því í fjórðu umferð mætir Stefán K Gylfa, Jón Viktor etur kappi við Oliver og þá mætast Einar Hjalti og Dagur.

Línur í B-flokki eru síst að skýrast þar sem fjórir keppendur eru efstir og jafnir með 2,5 vinning.  Það eru þau Jón Trausti Harðarson sem sigraði Pál Sigurðsson, Ingi Tandri Traustason sem vann Atla Antonsson, Þórir Benediktsson sem lagði Sverri Sigurðsson og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir sem sigraði Hörð Garðarsson.  Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Tinna Kristín Finnbogadóttir gerðu jafntefli en sú fyrrnefnda fylgir efstu keppendum með 1,5 vinning.  Af efstu mönnum mætast meðal annars í fjórðu umferð Ingi Tandri og Þórir.

Í C-flokki leiða Kristófer Ómarsson og Valgarð Ingibergsson með 2,5 vinning en Kristófer gerði jafntefli við Birki Karl Sigurðsson en Valgarð hafði betur gegn Sigurjóni Haraldssyni.  Birkir Karl og Elsa María Kristínardóttir koma næst með 2 vinninga.

Í opna flokknum leiða hvorki fleiri né færri en fimm keppendur með 2,5 vinning, þeir Björn Hólm Birkisson, Hilmir Hrafnsson, Hjálmar Sigurvaldason, Heimir Páll Ragnarsson og Haukur Halldórsson.  Þrír keppendur fylgja í kjölfarið með 2 vinninga.  Mjög erfitt er að spá fyrir um úrslitin í opna flokknum þar sem styrkleiki keppenda á toppnum er mjög áþekkur.

Fjórða umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Áhorfendur eru velkomnir og veglegar veitingar eru í boði gegn vægu gjaldi.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Bein útsending
  • Skákir: 1   2   3
  • Myndir