Gagnaveitumótið: Jón Viktor og Einar Hjalti leiða enn



Fimmta umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur fór fram síðastliðinn sunnudag en einnig var teflt á mánudagskvöld og nú þriðjudagskvöld þar sem nokkuð er um frestaðar viðureignir.  Á sunnudag hafði alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson hvítt gegn Kjartani Maack og var Jón Viktor í litlum vandræðum með að innbyrða öruggan sigur.  Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson gerði sér svo lítið fyrir og hafði betur gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni en þeir tefldu á mánudagskvöld.  Afar góður sigur hjá Einari, sem stýrði svörtu mönnunum, en hann hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu.

 

Jón Viktor og Einar Hjalti eru því enn efstir með fullt hús vinninga og eru óneitanlega í góðri stöðu.  Stefán kemur næstur með 3,5 vinning og þá nafni hans Bergsson með 3 vinninga en hann gerði jafntefli við Gylfa Þór Þórhallsson.  Hinn ungi og efnilegi Dagur Ragnarsson hefur staðið sig mjög vel og kemur næstur með 2,5 vinning en hann lagði Jóhann H. Ragnarsson.

 

Í sjöttu umferð, sem fer fram á miðvikudagskvöld, mætast m.a. Jón Viktor og Gylfi, Einar Hjalti og Stefán B sem og Stefán K og Dagur.

 

B-flokkur heldur áfram að vera tvísýnn en Ingi Tandri Traustason og Jón Trausti Harðarson leiða með 4,5 vinning.  Ingi Tandri vann Hörð Garðarsson og Jón Trausti hafði betur gegn Atla Antonssyni.  Næst koma Þórir Benediktsson og landsliðskonan Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir með 3,5 vinning en Hallgerður á inni frestaða skák gegn Tinnu Kristínu Finnbogadóttur og getur því skotist upp að hlið Inga og Jóns.

 

Næstu keppendur hafa 1,5 vinning en það getur breyst þar sem úrslit eru enn ekki ljós í tveimur viðureignum fimmtu umferðar.  Í sjöttu umferð mætast m.a. Jón Trausti og Hallgerður Helga í skák sem gæti orðið ein af úrslitaviðureignum B-flokksins.

 

Ef B-flokkur er jafn þá er C-flokkurinn enn meira spennandi þar sem Elsa María Kristínardóttir leiðir enn eftir jafntefli við Birki Karl Sigurðsson.  Elsa hefur 3,5 vinning en Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, Kristófer Ómarsson, Valgarð Ingibergsson og Sigurjón Haraldsson koma næst með 3 vinninga.

 

Sama spennan er í opna flokknum en þar leiða Sóley Lind Pálsdóttir og Haukur Halldórsson með 4 vinninga hvor.  Haukur vann Hilmi Hrafnsson og Sóley sigraði Hjálmar Sigurvaldason.  Fimm keppendur koma næstir með 3,5 vinning.  Sóley og Haukur mætast í sjöttu umferð.

 

Sjötta umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1   2   3   4
  • Myndir