Gagnaveitumótið: Einar Hjalti enn efstur



Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson gerði jafntefli við alþjóðlega meistarann Jón Viktor Gunnarsson í sjöundu umferð Gagnaveitumótsins – Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór í gær.  Einar Hjalti er því enn í efsta sæti með 6 vinninga og er taplaus í mótinu.  Jón Viktor er annar með 5,5 vinning ásamt stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni sem sigraði Jóhann H. Ragnarsson í skrautlegri viðureign.  Stefán, sem stýrði hvítu mönnunum, fórnaði snemma manni og treysti á bætur vegna slakrar liðskipan svarts.  Fórn stórmeistarans borgaði sig því Jóhann fann ekki réttu varnirnar og Stefán vann örugglega í kjölfarið með laglegri mátsókn.

Stefán Bergsson og Dagur Ragnarsson sömdu friðsælt jafntefli sem og Gylfi Þór Þórhallsson og Sverrir Örn Björnsson.  Skák Olivers Arons Jóhannessonar og Kjartans Maack var frestað.  Einar Hjalti, sem er kominn með aðra höndina á sigur í mótinu, mætir Sverri Erni í áttundu umferðinni og Oliver Aroni í lokaumferðinni en þá mætast Jón Viktor og Stefán K í innbyrðis viðureign.

Í B-flokki hefur Jón Trausti Harðarson tekið forystuna með 6,5 vinning.  Í gær sigraði hann Þóri Benediktsson í spennandi viðureign þar sem Þórir fórnaði liði fyrir hvassa sókn í Morra gambít Sikileyjarvarnar.  Hinn ungi og efnilegi Jón Trausti varðist fimlega og Þórir játaði sig sigraðan eftir fjögurra tíma setu.  Á sama tíma beið Ingi Tandri Traustason lægri hlut fyrir Tinnu Kristínu Finnbogadóttur og er því annar með 5,5 vinning en Þórir er þriðji með 4,5 vinning.

Jóhann Björg Jóhannsdóttir sigraði Pál Sigurðsson, sem hefur ekki fundið sig í mótinu, en jafntefli gerðu Hörður Garðarsson og Atli Antonsson sem og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Sverrir Sigurðsson.  Árangur Jóns Trausta er eftirtektarverður og 6,5 vinningur af 7 í svo jöfnum flokki sýnir vel styrk hans.  Hinsvegar kemur framganga hans ekki mjög á óvart enda mjög efnilegur skákmaður þar á ferð sem hefur hefur verið í mikilli framför að undanförnu.  Til marks um það hefur hann hækkað um tæplega 300 Elo stig á síðastliðnum tveimur árum.  Fyrirfram var hann því sigurstranglegastur í flokknum og á svo sannarlega skilið að fá að spreyta sig á meðal þeirra bestu en hann er kominn langt með að tryggja sér rétt til að keppa í A-flokki að ári.

Öllu meiri spenna er í C-flokki þar sem hin reynslumikla Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir er efst með 4,5 vinning en hún gerði jafntefli við Jón Einar Karlsson í gær.  Valgarð Ingibergsson og Sigurjón Haraldsson koma næstir með 4 vinninga.  Valgarð gerði jafntefli við Kristófer Ómarsson en Sigurjón á inni frestaða skák gegn Elsu Maríu Kristínardóttur og getur með sigri náð efsta sætinu.

Í opna flokknum heldur Haukur Halldórsson, liðsmaður Vinjar, forystunni með 6 vinninga eftir sigur á Ragnari Árnasyni.  Sóley Lind Pálsdóttir er önnur með 5 vinninga en Hilmir Hrafnsson, Ragnar og Guðmundur Agnar Bragason koma næstir með 4,5 vinning.  Það er afskaplega ánægjulegt að sjá Hauk aftur við skákborðið en hann hefur sést alltof lítið á skákmótum undanfarin ár.  Framganga hans í opna flokknum kemur raunar ekki mikið á óvart enda hefur hann fyrir löngu sýnt að hann kann ýmislegt fyrir sér á reitunum 64.

Nú verður gert hlé á mótinu vegna Íslandsmóts Skákfélaga sem fer fram um næstu helgi.  Áttunda og næstsíðasta umferð Gagnaveitumótsins fer fram miðvikudagskvöldið 16. október og hefst kl. 19.30.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1   2   3   4   5   6   7
  • Myndir