Fyrsta mót BRIM-mótaraðarinnar106003879_2030819170384136_1521503581310013845_oFyrsta mót BRIM-mótaraðarinnar fór fram helgina 19.-21. júní. Þetta var fyrsta mótið af sex, en þrjú fara fram í TR og þrjú úti á landi. Næsta mót verður í T.R. helgina 7.-9. ágúst og er mótanefnd TR þegar byrjuð að telja niður dagana! 

Skákin fór aftur að stað með 40 þátttakendum á öllum aldri frá 6 ára og hátt í áttrætt. Gott er að sjá karla og konur mæta galvösk eftir fjögurra mánaða hlé.

Í fyrstu umferð féllu nokkrar sprengjur: Hinn 7 ára Birkir Hallmundarson vann Sigurlaugu R. Friðþjófsdóttur. Markús Orri Jóhannsson náði jafntefli við Þór Valtýsson og Matthías Björgvin Kjartansson gerði sér lítið fyrir og vann Alexander Oliver Mai. Í öllum þessum viðureignum munaði 7-800 skákstigum, vel gert hjá ungu kynslóðinni. Hinn stigalausi Logi Sigurðsson reyndi lengi að máta með biskup og riddara en Benedikt Þórisson nýtti sér tímahrak andstæðingsins til þess að víkja sér fimlega undan öllum slíkum tilraunum. 

Í annarri umferð náði Kristján Dagur Jónsson jafntefli við Gauta Pál Jónsson. Aðrar viðureignir voru að mestu leyti eftir bókinni nema að ein af stærri sprengjum mótsins féllu þegar Arnar Heiðarsson lagði Guðmund Kjartansson að velli. Í fjórðu umferð urðu úrslitin á þann veg að þeir stigahærri unnu þá stiglægri. Enn með einni undantekningum þó, Markús Orri Jóhannsson vann Benedikt Þórisson og Birkir Hallmundarsson vann Árna Ólafsson. Af þeim yngstu hafa Matthías Björgvin Kjartansson, Markús Orri Jóhannsson, Birkir Hallmundarson og Adam Omarsson tekið miklum framförum. Allir hafa þeir teflt talsvert upp fyrir sig með góðum árangri.

Á laugardeginum voru tefldar tvær kappskákir og á sunnudeginum ein. Að mótinu loknu stóð  FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson uppi sem sigurvegari með 6 vinninga af 7 mögulegum. Næstir komu alþjóðlegu meistararnir Davíð Kjartansson og Guðmundur Kjartansson með 5½ vinning. Elvar Már Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og vann allar kappskákirnar og hækkar vel á stigum. Eftir aðalmótið var haldið hraðskákmót  og var það Vignir Vatnar sem stóð einnig uppi sem sigurvegari en hann hlaut 8 vinninga úr 9 skáum. Á hæla honum komu Davíð Kjartansson og Ingvar Þór Jóhannesson með 7½ vinning. 

Við hlökkum til að sjá sem flesta á næsta móti BRIM-mótaraðarinnar helgina 7.-9. ágúst! 

Lokastaðan: http://chess-results.com/tnr529155.aspx?lan=1&art=1&rd=7

Lokastaðan í hraðskákkeppninni: http://chess-results.com/tnr529274.aspx?lan=1&art=1&rd=9

 

Staðan í stigakeppninni: 

  1. Vignir Vatnar Stefánsson 13 stig (12+1 stig aðalmót + hraðskák)
  2. Davíð Kjartansson 9 stig 
  3. Guðmundur Kjartansson 8 stig 
  4. Lenka Ptacnikova 7 stig 
  5. Jóhann Ragnarsson 6 stig 
  6. Alexander Oliver Mai 5 stig 
  7. Elvar Már Sigurðsson 4 stig 
  8. Arnar Heiðarsson 3 stig 
  9. Gauti Páll Jónsson 2 stig 
  10. Aron Þór Mai 1 stig