Evrópumóti ungmenna lauk rétt í þessu í Prag í Tékklandi. Alls tefldu ellefu íslensk ungmenni á mótinu, þar af átta frá Taflfélagi Reykjavíkur. Öll nutu þau góðs af leiðsögn stórmeistaranna Helga Ólafssonar og Hjörvars Steins Grétarssonar á meðan á mótinu stóð.
Tvíburarnir sigursælu, Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir, sýndu svo ekki verður um villst að þeir eru til alls líklegir á næstu árum. Bárður Örn nældi sér í 5 vinninga, tapaði aðeins einni skák og hækkar fyrir vikið um 92 skákstig. Björn Hólm fékk 4,5 vinning og hækkar um 111 skákstig. Það er vonandi pláss í ferðatöskum þeirra bræðra fyrir öll þessi stig. Systir þeirra, Freyja Birkisdóttir, tefldi líka vel, fékk 4,5 vinning og hækkar um 10 skákstig. Saman veiddu þau alls 213 skákstig úr hinu alþjóðlega stigahagkerfi. Gaman væri að finna svar við hinni áleitnu spurningu: -hve oft í skáksögunni hafa þrjú systkini teflt fyrir hönd þjóðar sinnar í sama skákmóti?
Gauti Páll Jónsson átti erfitt uppdráttar í upphafi móts en setti svo í fluggírinn og endaði á að hala inn 3 vinninga í síðustu fjórum skákunum. Gauti Páll endaði því með 4 vinninga og hækkar fyrir vikið um 7 skákstig. Sama gerði Vignir Vatnar Stefánsson sem fékk 2,5 vinning í síðustu 3 skákunum. Vignir Vatnar endaði með 5,5 vinning en varð að sjá á eftir 31 skákstigi.
Róbert Luu lauk leik með 3,5 vinning, Benedikt Þórisson fékk 2,5 vinning og Bjartur Þórisson endaði með 1,5 vinning. Þó allir þrír hefðu vafalítið viljað fleiri vinninga þá er mælikvarði árangurs í svo stóru skákmóti ekki eingöngu byggður á vinningafjölda. Reynslan sem fylgir því að tefla á svo stóru sviði er ómetanleg ungum skákmönnum og mun án efa skila þeim auknum styrk til að takast á við þau skákmót sem framundan eru á heimaslóðum.
Af öðrum íslenskum keppendum má nefna að Tómas Möller, úr skákdeild Breiðabliks, stóð sig með miklum sóma á sínu fyrsta stóra skákmóti og fékk 3 vinninga. Pilturinn mun fljúga inn á skákstigalistann innan fárra vikna. Akureyringarnir Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson voru báðir nokkuð undir pari og enduðu með 4 vinninga.
Það er ljóst að framundan er spennandi vetur hjá ungmennunum okkar í TR sem virðast koma afar vel undan sumri.
Yfirlit yfir árangur allra íslensku keppendanna:
SNo | Name | Rtg | FED | 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | Pts. | Rk. | Group | |
62 | Thorisson Bjartur | 1014 | ISL | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 1 | 0 | ½ | 1,5 | 104 | B8 | |
84 | Moller Tomas | 0 | ISL | ½ | 0 | ½ | 1 | 0 | 0 | 0 | 0 | 1 | 3,0 | 91 | B8 | |
109 | Thorisson Benedikt | 1265 | ISL | 0 | 0 | 0 | 0 | 1 | 1 | 0 | ½ | 0 | 2,5 | 133 | B10 | |
83 | Luu Robert | 1779 | ISL | 0 | ½ | ½ | 0 | 1 | 1 | 0 | ½ | 0 | 3,5 | 126 | B12 | |
36 | Stefansson Vignir Vatnar | 2160 | ISL | 1 | ½ | 0 | 1 | ½ | 0 | ½ | 1 | 1 | 5,5 | 46 | B14 | |
83 | Birkisson Bardur Orn | 2028 | ISL | ½ | ½ | 0 | 1 | ½ | 1 | ½ | ½ | ½ | 5,0 | 48 | B16 | |
104 | Birkisson Bjorn Holm | 1908 | ISL | 0 | 1 | ½ | 0 | ½ | ½ | ½ | 1 | ½ | 4,5 | 71 | B16 | |
68 | Thorhallsson Simon | 2169 | ISL | 0 | 0 | 1 | 0 | 1 | ½ | ½ | 0 | 1 | 4,0 | 81 | B18 | |
70 | Thorgeirsson Jon Kristinn | 2151 | ISL | 0 | 1 | 0 | 1 | 0 | ½ | 0 | 1 | ½ | 4,0 | 77 | B18 | |
84 | Jonsson Gauti Pall | 2075 | ISL | 0 | 0 | 1 | 0 | 0 | 1 | 1 | ½ | ½ | 4,0 | 79 | B18 | |
71 | Birkisdottir Freyja | 1176 | ISL | 0 | 1 | 0 | 0 | 1 | 1 | 1 | 0 | ½ | 4,5 | 58 | G10 |