Í tilefni skákdagsins 26. janúar stoppaði forseti alþjóðlega skáksambandsins (FIDE), Arkady Dvorkovich, við á Íslandi. Tilefni heimsóknarinnar var að sjálfsögðu að votta Friðrik Ólafssyni virðingu skáksamfélagsins. Friðrik er níræður í dag og afrek hans á skáksviðinu þarf varla að kynna fyrir nokkrum.
Friðrik var fyrsti stórmeistari Íslendinga, komst í fremstu röð á Áskorendamót og lagði fjölda Heimsmeistara á sínum glæsta skákferli. Friðrik tók síðar að sér forsetastól FIDE og núverandi forseti sá sér leik á borði að líta við til að samfagna með Friðrik.
Arkady stoppaði við í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur og lék þar fyrsta leiknum í skák Vignis Vatnars Stefánssonar á efsta borði. Vignir lék 1.c4 en Friðrik var þekktur fyrir að bregða ensku leiknum reglulega fyrir sig. Friðrik er skiljanlega uppáhaldsskákmaður Vignis og því lítið annað í boði!