Fjórir með fullt hús á Öðlingamótinu



Þeir fjölmörgu þátttakendur í Skákmóti Öðlinga sem settust að tafli í 2.umferð síðastliðinn miðvikudag fengu kærkomna upphitun fyrir Íslandsmót skákfélaga sem fram fór um helgina. Hart var glímt í þessari umferð en drengilega þó og báru skákirnar margar hverjar þess merki. Fjórir skákmenn hafa fullt hús og ber þar fyrstan að nefna aldursforsetann og fyrrum Íslandsmeistarann, já og fyrrum skákmeistara Taflfélags Reykjavíkur, Gunnar Gunnarsson.

20170301_194525

Gunnar stýrði hvíta hernum til fullnaðarsigurs gegn Sverri Unnarssyni. Reykjanesundrið, Siguringi Sigurjónsson, hefur einnig fullt hús vinninga eftir sigurskák gegn Óskari Long Einarssyni. Gamli markmaðurinn, Ögmundur Kristinsson, hleypti engum boltum framhjá sér gegn Kjartani Ingvarssyni og heldur því búrinu enn hreinu eftir fyrstu tvær umferðirnar. Þá er gamla brýnið Þór Valtýsson einnig með fullt hús vinninga en hann lagði Pétur Jóhannesson að velli.

Það þótti nokkrum tíðindum sæta er Magnús Matthíasson vann Gylfa Þórhallsson með svörtu mönnunum, en á þeim munar tæplega 360 skákstigum. Af öðrum úrslitum má nefna jafntefli Inga Tandra Traustasonar og Þorvarðs Fannars Ólafssonar sem og sigur landsliðseinvaldsins, Ingvars Þórs Jóhannessonar, gegn Arnaldi Loftssyni.

20170301_194603

Í 3.umferð sem fram fer næstkomandi miðvikudagskvöld mætast efstu menn; Ögmundur hefur hvítt gegn Gunnari og Þór stýrir hvítu mönnunum gegn Siguringa. Sem fyrr verður heitt á könnunni og fjörugar flækjur á skákborðunum. Allir velkomnir!