Fjör á Frikkanum – Friðrik mætti!



Síðastliðið föstudagskvöld fór fram hin magnaða keppni Frikkinn 2015 í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur. Þetta var fimmta skemmtikvöld félagsins á þessum vetri og að þessu sinni var teflt til heiðurs hinni lifandi goðsögn, Friðriki Ólafssyni. Tefldar voru stöður úr skákum Friðriks og voru margar þeirra kunnar vel lesnum skákmönnum. Friðrik sem nýverið fagnaði áttræðisafmæli sínu hefur alla sína skáktíð verið dyggur félagsmaður í Taflfélagi Reykjavíkur og vitaskuld lét hann sig ekki vanta á skemmtikvöldið.

Kliður fór um salinn er ljóst var að Friðrik yrði viðstaddur til að fylgjast með hvernig keppendum myndi farnast að tefla hinar frægu stöður. Leiða má líkum að því að þeir sem ekki þekktu stöður Friðriks hafi verið einna mest órótt. Það vill enginn íslenskur skákmaður verða uppvís að því að vera ren í skáksögu Friðrik Ólafssonar. Allra síst að Friðriki sjálfum viðstöddum.

Friðrik lék fyrsta leiknum fyrir Arnar Gunnarsson gegn Stefáni Bergssyni. Staðan sem tefld var var úr hinni sögufrægu sigurskák Friðriks gegn Fischer þegar Friðrik fórnaði skiptamuni. Margir þekktu fyrsta leikinn en merkilegt nokk þá hirti enginn skiptamuninn líkt og Fischer gerði. Hvort það var vegna þess að menn voru vel lesnir og ætluðu ekki að gera sömu mistök og Fischer, eða hvort menn voru illa lesnir og sáu ekki að þeir gátu unnið skiptamun, verður ekki dæmt um hér.

Eftir mikla baráttu, gamanmál og gleði var það Jón Viktor Gunnarsson sem stóð uppi sem sigurvegari. Jón Viktor hlaut 11,5 vinning í 12 skákum og hlaut hann því nafnbótina Frikkinn. Það var aðeins Arnar Gunnarsson sem náði að kreista hálfan vinning af Jóni Viktori. Arnar varð einmitt annar með 9 vinninga. Í þriðja sæti varð svo Guðni Stefán Pétursson, sem nýverið hlaut nafnbótina Úlfurinn eftir frækna framgöngu í stöðum hins hægteflandi Ulf Anderson. Guðni Stefán hlaut 8 vinninga. Aðrir fengu minna. Þá sérstaklega Þorvarður Fannar Ólafsson sem vermdi 14 sætið með 3,5 vinning.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar teflendum fyrir skemmtilega kvöldstund, og þá eru Friðriki Ólafssyni færðar sérstakar þakkir fyrir að líta við. Það var einstaklega skemmtilegt að fylgjast með áhyggjusvip sumra skákmanna er þeir reyndu sig við stöðurnar með Friðrik standandi yfir sér að fylgjast með! Einnig fær landsliðsþjálfarinn og Fíde-meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson góðar þakkir fyrir að velja hinar 12 stórskemmtilegu stöður sem tefldar voru.

Næsta skemmtikvöld Taflfélags Reykjavíkur er fyrirhugað síðasta föstudag í febrúar og er búist við góðri mætingu líkt og á fyrri skemmtikvöldum. Þátttakendur hingað til hafa komið frá mörgum ólíkum taflfélögum og hefur skákstyrkleikinn verið frá stigalausum og upp í stórmeistara. Allir 20 ára og eldri eru velkomnir á skemmtikvöldin!  Hér má sjá myndir frá fjörinu.

  • Frikkinn 2015: Jón Viktor Gunnarsson
  • Úlfurinn 2014: Guðni Stefán Pétursson
  • Karlöndin 2014: Stefán Kristjánsson
  • Mórinn 2014: Hannes Hlífar Stefánsson