EM ungmenna: Sigrar í lokaumferðinniVignir Vatnar Stefánsson og Veronika Steinunn Magnúsdóttir unnu bæði í lokaumferð Evrópumeistaramóts ungmenna sem lauk í gær en bæði höfðu þau gert jafntefli í næstsíðustu umferðinni.

 

Eftir góðan fyrri hluta hjá Vigni vann hann aðeins eina viðureign af síðustu fjórum sem gerði út um vonir um toppbaráttu.  Hann hlaut 6 vinninga í skákunum níu og hafnaði í 11.-24. (13.) sæti en hann var númer 12 í stigaröð keppenda.  Árangur Vignis samsvarar 1683 stigum og hann lækkar um 10 stig.  Ekki besta mót Vignis sem kemur þó reynslunni ríkari inn í næsta Evrópumót þar sem hann mun fara upp um aldursflokk.  Vignir Vatnar er aðeins tíu ára gamall og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í skákinni.

 

Veronika átti góðan endasprett en á brattann var að sækja í upphafi móts enda var hún með stigalægstu keppendunum í sínum flokki.  Eftir að tapa fyrstu fimm skákunum vann hún tvær af síðustu fjórum og gerði tvö jafntefli.  Hún hlaut 3 vinninga og árangur hennar samsvarar 1490 stigum og lækkar hún um 15 stig.  Fín frammistaða hjá Veroniku á hennar fyrsta Evrópumóti og hún kemur reynslunni ríkari heim til Íslands.

 

Taflfélag Reykjavíkur er stollt af því að eiga svo flotta fulltrúa á Evrópumeistaramótinu og þá má jafnframt benda á að alls fóru átta glæsilegir fulltrúar á mótið fyrir Íslands hönd en nánar má lesa um frammistöðu þeirra á skak.is.

 

Vignir og Veronika koma nú heim þar sem þau keppa fyrir hönd T.R. í Íslandsmóti skákfélaga um næstu helgi.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins
  • Skákir Vignis
  • Skákir Veroniku